Erlent

Alls­herjar­þingið for­dæmir inn­rásina og krefst þess að her­lið verði dregið til baka

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Úrslitin urðu ljós síðdegis í dag.
Úrslitin urðu ljós síðdegis í dag. AP Photo/Seth Wenig

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt ályktun þar sem innrás Rússa í Úkraínu er fordæmd og þess krafist að rússneskir hermenn verði dregnir til baka.

141 af 193 aðildarríkjum SÞ samþykktu ályktunina. 35 sátu hjá, fimm kusu gegn ályktuninni. Ísland var eitt þeirra ríkja sem lagði ályktunina fram auk þess sem að fulltrúi Íslands greiddi atkvæði með tillögunni.

Kína var á meðal þeirra ríkja sem sat hjá. Rússland, Hvíta-Rússland, Erítrea, Sýrland og Norður-Kórea kusu gegn tillögunni.

Ályktunin var samþykkt á neyðarþingi allsherjarþingsins sem kallað var saman eftir að Rússar beittu neitunarvaldi sínu til að hafna samskonar ályktun af hálfu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Í ályktuninni er innrásin harðlega gagnrýnd og fordæmt og þess krafist að Rússar dragi allt sitt herlið til baka án skilyrða, undir eins.

Ályktunin er ekki lagalega bindandi en er álitshnekkur fyrir Rússa og Hvít-Rússa og ætlað að auka þrýsting á þessi tvö ríki vegna innrásarinanr.

Afar fátítt er að allsherjaþingið sé kallað saman til neyðarfundar. Það hefur aðeins verið gert í ellefu skipti frá árinu 1950, og var þetta í fyrsta sinn í fjóra áratugi sem slíkur fundur var haldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×