Enski boltinn

Nýr stjóri Leeds: Ted Lasso þættirnir eru ekki að hjálpa okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jesse Marsch stýrir Leeds United í fyrsta sinn um helgina.
Jesse Marsch stýrir Leeds United í fyrsta sinn um helgina. EPA-EFE/FILIP SINGER

Jesse Marsch er nýtekinn við knattspyrnustjórastarfi Leeds United eftir að Marcelo Bielsa var rekinn. Þessi bandaríski stjóri segist eins og aðrir landar hans í þjálfun þurfa að glíma við fordóma gagnvart bandarískum knattspyrnuþjálfurum.

Marsch er 48 ára gamall og skrifaði undir samning við Leeds til júní 2025. Hann lék alla tíð sem leikmaður í Bandaríkjunum og hóf þjálfaraferil sinn þar en hefur verið í Evrópu frá 2019.

Á sínum fyrsta blaðamannafundi þá talaði Marsch um að það væri í raun smánarblettur á knattspyrnuþjálfurum þegar fólk vissi að þeir kæmu frá Bandaríkjunum. Aðalástæðan er sá menningarlegur munur á gildi þessara tveggja íþrótta sitt hvorum megin við Atlantshafið þó að fótboltinn sé alltaf í sókn í Bandaríkjunum.

Það eru samt ekki margir stjórar sem fara að tala um sjónvarpsþætti á sínum fyrsta blaðamannafundi sem knattspyrnustjóri í ensku úrvalsdeildinni en það gerði einmitt Jesse Marsch.

„Ég held að það sé líklega smánarblettur á bandarískum þjálfurum og ég er ekki viss um að Ted Lasso þættirnir hafi hjálpað okkur mikið. Ég hef reyndar ekki horft á þættina en ég skil það,“ sagði Jesse Marsch.

Í Ted Lasso þáttunum kemur þjálfari úr ameríska fótboltanum til Bretlands og tekur við ensku knattspyrnuliði.

„Fólk hatar að heyra orðið soccer. Ég hef notað orðið fótbolti síðan ég varð atvinnumaður í fótbolta. Hægt og rólega er fólk í Bandaríkjunum að aðlaga sig að því hvað fótbolti er í þessu landi hér og tengingu hans og ensku úrvalsdeildarinnar við þjóðarsálina,“ sagði Marsch.

Marsch vann tvo meistaratitla sem þjálfari FC Salzburg í Austurríki en var rekinn sem stjóri RB Leipzig í desember síðastliðnum eftir aðeins fjóra mánuði í starfi.

„Ég get skilið það að fólk telji ekki okkur amerísku þjálfarana hafa reynsluna sem menn ná sér í hér í Evrópu. Ef ég segi eins og er þá er það rétt. Það var ástæðan fyrir því að ég kom til Evrópu. Það var ástæðan fyrir því að ég lærði þýsku. Það var ástæðan að ég aðlagaðist annarri menningu. Þetta verður fimmta landið sem ég þjálfa í,“ sagði Marsch.

„Það tekur mig út úr þægindarammanum í hvert skipti. Þetta er alltaf áskorun fyrir mig að vaxa, að þróa mig og að læra nýja hluti. Ég er mjög opin fyrir því og geri mér alveg grein fyrir því að ég er ekki fullkominn. Ég vil heldur ekki vera það,“ sagði Marsch.

„Það sem ég get sagt er að eina leiðin fyrir mig er að gera allt af fullum krafti og gefa allt sem ég á, að trúa á sjálfan mig sem og á fólkið sem ég vinn með. Með því reyni ég að ná því mesta úr öllum á hverjum degi. Ég hef komist að því að með því getur mannsandi komið þér mikið á óvart sem og hvað þú getur afrekað,“ sagði Marsch og það var stutt í grínið.

„Svo að það hljómar svolítið eins og Ted Lasso miðað við það sem ég hef heyrt,“ sagði Marsch léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×