Enski boltinn

Stjóri Boreham fékk falleg skilaboð frá Lampard fyrir leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frank Lampard og Luke Garrard á hliðarlínunni á Goodison Park.
Frank Lampard og Luke Garrard á hliðarlínunni á Goodison Park. getty/Stu Forster

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Everton, sendi stjóra Boreham Town, Luke Garrard, falleg skilaboð nokkrum dögum áður en úrvalsdeildarliðið sló utandeildarliðið út í ensku bikarkeppninni.

Öskubuskuævintýri Boreham í ensku bikarkeppninni lauk í gær þegar liðið tapaði 2-0 fyrir Everton á Goodison Park í sextán liða úrslitum keppninnar.

Boreham kom gríðarlega á óvart í bikarkeppninni og tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum hennar með sigri á Bournemouth, einu sterkasta liði B-deildarinnar. Eftir þann sigur sendi Lampard verðandi mótherja sínum í sextán liða úrslitunum falleg skilaboð. Dregið var í sextán liða úrslitin sama dag og Boreham vann Bournemouth.

„Hæ Luke, Frank Lampard hér. Vildi bara óska þér til hamingju með úrslitin í gær. Bara þjálfara á milli sá ég hversu miklu máli þetta skipti þig og það er þess vegna sem við stöndum í þessu!“ skrifaði Lampard.

„Ég geri þetta venjulega ekki fyrir leiki en ég vildi bara segja þetta og við, sem félag, bjóðum ykkur velkomna á Goodison. En vonandi samt ekki of velkomna þegar leikurinn hefst. Hlakka til að sjá þig, Frank.“

Á blaðamannafundi fyrir leikinn í gær hrósaði Garrard Lampard í hástert og kvaðst hlakka til að ræða við hann fyrir og eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×