Allt frá nokkrum hundruðum til þúsunda Úkraínumanna gætu fengið skjól á Íslandi eftir að neyðarákvæði útlendingalaga var virkjað í gærkvöldi. Formaður flóttamannanefndar segir ljóst að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ráði ekki ein við að taka á móti þessum fjölda en er ánægður með undirtektirnar.
Stríðið í Úkraínu hvílir þungt á sumum börnum hér á landi en sum reyna að hugsa sem minnst um það. Sálfræðingur segir að foreldarar geti með sinni hegðun haft áhrif á hversu mikið börnin taki stríðið og afleiðingarnar af því inn á sig.
Við skoðum einnig væntanlegar breytingar á Lækjartorgi, sem mun taka miklum breytingum á næstu árum og hittum tvo unga legóstráka sem vinna hörðum höndum að því að klára risastóra eftirlíkingu af Icelandair flugvél.
Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Stöðvar 2 og Bylgjunnar klukkan hálf sjö.