Peskov hafnar því alfarið að Rússar séu einangraðir vegna stríðsins. Alheimurinn sé miklu stærri en Vesturlönd og Bandaríkin. Fréttastofa Reuters greinir frá þessu.
„Þetta þýðir ekki að Rússland sé einangrað. Heimurinn er stærri en svo að Vesturlöndum og Bandaríkjunum geti tekist að einangra land, ég tala nú ekki um jafn stórt land og Rússland. Það eru fjölmörg önnur lönd í heiminum.“
Peskov gagnrýndi Vesturlönd harðlega fyrir efnahagslegar þvinganir og hét því að rússnesk stjórnvöld myndu svara í sömu mynt. Hann fékkst þó ekki til þess að segja hvers eðlis slíkt andsvar yrði annað en að hagsmunir Rússar yrðu hafðir að leiðarljósi.
„Eins og þú hlýtur að skilja, þá verðum við að svara þessum glæpsamlegu efnahagsþvingunum.“
Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu hefur orðið til þess að fjölmörg lönd hafa gripið til fordæmalausra efnahagsþvingana og þá hafa fyrirtæki í stórum stíl forðað sér frá Rússlandi. Þá hefur Rússum verið vikið úr alls konar íþróttakeppnum og listamenn tekið sér stöðu með Úkraínu.