Nú styttist óðum í Hlustendaverðlaunin 2022 sem fara fram 19. mars næstkomandi. Nýliði ársins er meðal verðlaunaflokka og eru átta hljómsveitir og tónlistarmenn sem keppast um titilinn. Lífið á Vísi ræddi við allt tónlistarfólkið sem var tilnefnt í þessum flokki og fékk smá innsýn inn í sköpunargleði þeirra og tónlist.
Hver eruð þið í ykkar eigin orðum?
Við erum Poppvélin, band sem byrjaði fyrir tæpu ári síðan með það að markmiði að gera skemmtilega tónlist og hafa gaman að vegferðinni.
Hvenær kviknaði ástríðan fyrir tónlist?
Ástríðan fyrir tónlist kviknaði hjá okkur öllum þegar við vorum ung og við erum með mjög ólíkan bakgrunn í tónlistarheiminum sem sameinast á skemmtilegan hátt í Poppvélinni
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna í tónlist?
Að sjá hugmyndir verða að veruleika, vinna með frjóu og skemmtilegu fólki og fá að koma fram á ólíkum viðburðum og skemmta fólki.
Hvernig hafið þið sem hljómsveit þróast frá því þið komuð fyrst fram?
Við höfum átt gott samstarf frá upphafi og það hefur þróast áfram í því að geta skapað í sameiningu, átt auðvelt með að koma með nýjar hugmyndir og fundið meira öryggi í liðsheildinni.
Hvernig var tilfinningin að fá tilnefningu sem nýliði ársins?
Það var ótrúlega skemmtilegt og óvænt! Við erum stolt og þakklát fyrir tilnefninguna.