Enski boltinn

Ætlaði að rjúka í Eriksen en áttaði sig svo á því hver hann var

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Brandon Williams var tilbúinn að láta þann sem braut á sér heyra það áður en hann áttaði sig á því að það var Christian Eriksen sem var sá brotlegi.
Brandon Williams var tilbúinn að láta þann sem braut á sér heyra það áður en hann áttaði sig á því að það var Christian Eriksen sem var sá brotlegi. Julian Finney/Getty Images

Brandon Williams, leikmaður Norwich, snöggreiddist í 3-1 tapi liðsins gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni er brotið var á honum í leiknum. Hann var hins vegar alveg jafn fljótur að jafna sig þegar hann sá hver það var sem braut á honum.

Sá brotlegi var nefnilega Daninn Christian Eriksen sem var að byrja sinn fyrsta keppnisleik eftir að leikmaðurinn fór í hjartastopp á EM seinasta sumar.

Þegar tæpar 40 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 1-0, Brentford í vil. Þá fékk Brandon Williams boltann úti á vinsti kanti og lagði af stað í sókn. Eriksen ákvað hins vegar að ríghalda í Englendinginn unga og stoppa þar með vænlega sókn Norwich.

Williams brást hinn versti við og á einu augnabliki leit út eins og hann ætlaði að rjúka í Eriksen. Hann var þó fljótur að róast þegar hann áttaði sig á því hvern hann væri að eiga við og faðmaði Danann í staðinn.

Þeir félagar gátu brosað að þessu atviki, en Eriksen slapp þó ekki við gult spjald frá Anthony Taylor, sama dómara og dæmdi leik Danmerkur og Finnlands á EM sem Eriksen hné niður í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×