Nú styttist óðum í Hlustendaverðlaunin 2022 sem fara fram 19. mars næstkomandi. Nýliði ársins er meðal verðlaunaflokka og eru átta hljómsveitir og tónlistarmenn sem keppast um titilinn. Lífið á Vísi ræddi við allt tónlistarfólkið sem var tilnefnt í þessum flokki og fékk smá innsýn inn í sköpunargleði þeirra og tónlist.
Hver ert þú með eigin orðum?
Fyrst og fremst myndi ég segja tónlistarmaður sem hef mjög gaman af vinnunni og elskar að semja tónlist.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna í tónlist?
Ætli það sé ekki bara tónlistin sjálf og að flestir sem maður vinnur með eiga sameiginlegan áhuga á tónlistinni.
Hvernig hefur þú sem tónlistarmaður þróast frá því þú komst fyrst fram?
Ég held nú að allir breytist aðeins með árunum, ég gaf út fyrstu smáskífuna Leya þegar ég var 18 ára og núna er maður orðin 25, flestir breytast á þeim árum!
Hvernig var tilfinningin að fá tilnefningu sem nýliði ársins?
Æðisleg! Ég fef aldrei verið tilnefndur fyrir eitthvað á Íslandi þannig að það er gaman að geta sýnt fjölskyldu og vinum á Íslandi svona hluti.