Enski boltinn

Þorði virkilega að fagna svona fyrir framan nefið á Roy Keane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Keane var ekki mjög brosmildur eftir tap Manchester United liðsins á móti nágrönnum sínum en Micah Richards hafði einstaklega gaman af öllu saman.
Roy Keane var ekki mjög brosmildur eftir tap Manchester United liðsins á móti nágrönnum sínum en Micah Richards hafði einstaklega gaman af öllu saman. Instagram/@skysports

Það er óhætt að segja að Manchester United goðsögninni Roy Keane hafi verið lítið skemmt eftir 4-1 tap Manchester United á móti nágrönnum sínum í Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Keane horfði þar upp á hörmulega frammistöðu sinna manna á vakt sinni hjá Sky Sports og Írinn skapmikli sló ekkert af í gagnrýni sinni á United liðið eftir leikinn.

Það var pottþétt ekkert að gera lífið skemmtilegra fyrir hann að hafa hoppandi glaðan Micah Richards sér við hlið.

Richards er mikill Manchester City maður enda var hann leikmaður félagsins í fjórtán ár, fyrst í fjögur á með unglingaliðinu og svo í tíu ár í viðbót með aðalliðinu.

Richards gerði í því að stríða Manchester United stuðningsmönnum í Sky Sports myndverinu þegar ljóst var í hvað stefndi í leiknum.

Hann gekk síðan mjög langt í að stríða Roy Keane. Allt setti hann þetta inn á samfélagsmiðla sína.

Roy Keane er nú harðari en þeir flestir og margar sögur um grimmd inn á vellinum. Það er því eitt að þora því að stríða honum jafnmikið og Richards gerði.

Richards þorði að fagna sigri City bókstaflega fyrir framan nefið á Keane en eins og sjá má hér fyrir neðan þá skeytti hann hnefanum margoft fyrir framan andlit Keane áður en útsending Sky Sports hófst eftir leikinn.

Klippa: Fagnaði fyrir framan nefið á Roy Keane



Fleiri fréttir

Sjá meira


×