Fram kemur í tilkynningu frá Þroskahjálp um söfnunina að fatlað fólk geti margt ekki flúið stríðið vegna aðstæðna sinna, geti illa orðið sér úti um mat, lyf og aðrar nauðsynjar. Þá aukist líkur á ofbeldi þar að auki, að fatlað fólk verði skilið eftir og að það sé án aðstoðar og stuðnings.
Ástandið versni þar dag frá degi og árásir rússneskra stjórnvalda á óbreytta borgara í Úkraínu haldi áfram.

„Hreyfingarnar, sem allar vinna að réttindum fatlaðs fólks, hafa því sett af stað sameiginlega söfnun til þess að koma fjármagni til fatlaðs fólks og tryggja þeim aðstoð á staðnum. Öll framlög munu renna beint til neyðaraðstoðar fyrir fatlað fólk í Úkraínu, milliliðalaust,“ segir í tilkynningunni.
Fatlað fólk skilið eftir
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, starfsmaður Þroskahjálpar, segir í samtali við fréttastofu að fatlað fólk sé mjög berskjaldað í neyðarástandi, sama hvort um sé að ræða náttúruhamfarir eða stríðsátök.
„Þau geta ekki flúið, reiða sig á hjálpartæki og aðstoð og aðstæður á flótta eru mjög erfiðar eins og við vitum. Ferðalögin geta verið löng, vont veður á meðan og flókið að komast á salerni og í skjól,“ segir Inga Björk.
Hún segir að Þroskahjálp hafi verið í samskiptum með systursamtökum í Úkraínu í gegn um Inclusion Europe, sem samtökin eigi aðild að. Í gegn um systursamtökin í Úkraínu hafi borist þær upplýsingar að aðstæður þar fyrir fatlað fólk séu mjög slæmar. Fólk geti ekki farið, það eigi erfitt með að komast í skjól, erfitt reynist því að verða sér úti um mat, lyf og aðrar nauðsynjar.

„Við vitum að fatlað fólk sem býr á stofnunum er í mikilli hættu á að vera skilið eftir og það virðist vera að gerast. Fatlað fólk situr eftir með fjölskyldum sínum eða aleitt. Að sögn samtakanna úti er mest þörf á fjármagni til að tryggja fólki mat, lyf og aðrar nauðsynjar. “
Systursamtök Þroskahjálpar í Evrópu komi þar að auki að verkefninu til að koma aðföngum og aðstoð á staðinn. Þá muni samstarf félaganna halda áfram, meðal annars með samtali við stjórnvöld um að taka á móti fötluðu fólki frá Úkraínu.
Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á reikning Þroskahjálpar:
Reikningur: 526-26-5281, kennitala: 521176-0409.