Innherji

Stríðsátökin „varpa skugga á allt annað,“ fjárfestar búast áfram við miklum sveiflum

Þróun stríðsátakanna í Úkraínu og skilaboð bandaríska seðlabankans í næstu viku eru þeir þættir sem munu ráða mestu um stefnu markaða næstu daga og vikur. „Það er líklegt að sveiflur verði áfram miklar enda er ekki að sjá neina lausn í sjónmáli,“ segir Davíð Stefánsson, sjóðsstjóri hjá Akta.

Hörður Ægisson skrifar
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um meira en 10 prósent frá innrás Rússa í Úkraínu, nokkuð meira en sumra annara hlutabréfavísitalna í löndunum í kringum okkur.

Þróun stríðsátakanna í Úkraínu og skilaboð bandaríska seðlabankans í næstu viku eru þeir þættir sem munu ráða mestu um stefnu markaða næstu daga og vikur. „Það er líklegt að sveiflur verði áfram miklar enda er ekki að sjá neina lausn í sjónmáli,“ segir Davíð Stefánsson, sjóðsstjóri hjá Akta.

Við lokun markaða í gær hafði Úrvalsvísitalan fallið um liðlega tíu prósent frá innrás Rússa í Úkraínu aðfaranótt fimmtudagsins 24. febrúar síðastliðinn – frá áramótum nemur lækkunin samtals um 14 prósentum – og hefur verðlækkun hlutabréfa hér á landi verið nokkuð meiri en á sumum öðrum mörkuðum í Evrópu og á hinum Norðurlöndunum, eins og í Danmörku og Svíþjóð. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,6 prósent til viðbótar það sem af er degi, en hlutabréf Icelandair, Kviku og Arion banka hafa lækkað hvað mest.

Viðmælendur á fjármálamarkaði segja að lífeyrissjóðirnir, langsamlega umsvifamestu fjárfestarnir í Kauphöllinni, hafi fyrstu dagana eftir innrásina í Úkraínu – þegar óvissan var hvað mest – haldið sig að mestu til hlés í að gera kauptilboð í félögum á markaði þrátt fyrir miklar verðlækkanir.

„Þegar líða fór á síðustu viku voru lífeyrissjóðirnir hins vegar mættir í stórum stíl og ryksuguðu til sín töluvert af bréfum,“ segir einn hlutabréfasjóðstjóri í samtali við Innherja, en í flöggun til Kauphallarinnar í gær kom meðal annars fram að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hefði bætt við sig í Marel fyrir tæplega 700 milljónir að markaðsvirði og færi nú með rúmlega 5 prósenta hlut.

Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arion banka, segir að innrás Pútíns í Úkraínu og atburðarásin í framhaldinu hafi mjög víðtæk áhrif á markaði. „Augljóst er að félög í beinum viðskiptum við Rússland og Úkraínu verða fyrir áhrifum og sömuleiðis félög sem verða fyrir kostnaðarhækkunum út af verðhækkunum á olíu og annarrar hrávöru,“ útskýrir Stefán Broddi, en tunnan af Brent-hráolíu kostar nú 127 Bandaríkjadali – ekki verið hærri frá árinu 2008 – og hefur hækkað um liðlega 34 prósent frá því að stríðsátökin hófust.

Davíð Stefánsson, sjóðstjóri hjá Akta.

Íslensku flugfélögin hafa ekki farið varhluta af þeirri þróun og hafa hlutabréf Icelandair á þeim tíma fallið í verði um fjórðung á meðan gengi bréfa Play hefur lækkað um nærri 20 prósent. Sjávarútvegsfyrirtækin Brim og Síldarvinnslan, sem eru bæði skráð á hlutabréfamarkað, verða sömuleiðis fyrir beinum áhrifum vegna stríðsins en þau selja frosnar uppsjávarafurðir til Úkraínu og nágrannalanda sem nema um 5 prósent af heildartekjum hjá Brim en um 10 prósent hjá Síldarvinnslunni. Þá eru félögin með óverulegar útistandandi viðskiptakröfur í þessum löndum, hvort um sig upp á liðlega einn milljarð króna.

Þegar líða fór á síðustu viku voru lífeyrissjóðirnir hins vegar mættir í stórum stíl og ryksuguðu til sín töluvert af bréfum.

Færa sig úr áhættu yfir í öruggari eignir

Að sögn Davíðs hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Akta má skýra mikið verðfall á íslenska hlutabréfamarkaðinum til lækkana á erlendum mörkuðum.

„Lækkunin hér heima hefur verið skarpari síðustu viðskiptadaga sem má rekja til þess að íslenski markaðurinn hafði fram í miðjan febrúar haldið mjög vel í samanburði við erlenda markaði sem höfðu þá lækkað umtalsvert. Nú hefur íslenski markaðurinn náð í skottið á hinum erlendu ef svo má segja,“ segir Davíð.

Stríðsátökin hafi augljóslega umtalsverð áhrif á rekstur margra félaga í Kauphöllinni, meðal annars vegna verðhækkana á hrávöru.

„Truflanir á virðiskeðjum og hækkanir á hrávörum setja seðlabanka í mjög þrönga stöðu. Verðbólga hefur verið há á sama tíma og vextir hafa verið lágir. Nú er útlit fyrir að verðbólgan haldist enn lengur há en á móti eru hagvaxtarhorfur að versna. Fjárfestar búa þannig við umtalsverða óvissu um viðbrögð seðlabanka í þessu umhverfi sem hefur neikvæð áhrif á hlutabréf. Þeir þættir ásamt áhyggjum af stríði gera það að verkum að lækkanir eru mjög almennar,“ að sögn Davíðs.

Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar hjá Arctica Finance, tekur í sama streng í samtali við Innherja og bendir á að markaðurinn sé flæðisdrifinn um þessar mundir. Það þýði að skuldsetning sumra hlutabréfafjárfesta – stundum nefnd gírun – sé að minnka og verið sé að færa eignasöfn úr áhættu yfir í öruggari fjárfestingarkosti og samhliða þeirri þróun sé mögulega eitthvað um veðköll. „Á meðan sú tilfærsla á sér stað þá skiptir Excel-skjalið oft minna máli en áður, að minnsta kosti til skemmri tíma litið,“ útskýrir hann.

Mæta veðköllum vegna lækkana á mörkuðum

Samkvæmt viðmælendum Innherja á markaði hefur að undanförnu verið einhver dæmi um að skuldsettir fjárfestar, bæði fagfjárfestasjóðir og einkafjárfestar, hafi þurft að mæta veðköllum frá fjármálastofnunum vegna framvirkra samninga sem þeir hafa gert með því að reiða annaðhvort fram frekari tryggingar eða selja frá sér bréfin.

Nú er útlit fyrir að verðbólgan haldist enn lengur há en á móti eru hagvaxtarhorfur að versna. Fjárfestar búa þannig við umtalsverða óvissu um viðbrögð seðlabanka í þessu umhverfi sem hefur neikvæð áhrif á hlutabréf.

Sumir benda hins vegar á að það boðuð sala ríkissjóðs á stórum hlut í Íslandsbanka, sem kann núna að frestast um sinn vegna óvissunar á mörkuðum, hafi gert það að verkum að margir verðbréfasjóðir og fjársterk eignarhaldsfélög séu að undanförnu búnir að vera með augun á sölunni. Skuldsetning fjárfesta hafi á þessum tímapunkti því verið minni en ella og að sama skapi lausafjárstaðan betri, meðal annars til að mæta mögulegum veðköllum samhliða miklum verðlækkunum síðustu daga.

Að sögn Valdimars er óvissan afar mikil með framhaldið.

„Staðan gæti breyst snarlega til hins betra ef einhverra hluta vegna stríðið klárast en verri sviðsmyndin er hins vegar áframhaldandi óvissa og mjög snúin staðan með minnkandi alþjóðlegum viðskiptum, háu hrávöruverði og mögulega skorti á sumum vörum.“

Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arion banka.

Stefán Broddi segir að dekkri verðbólguhorfur vegna verðhækkana á hrávörum muni leiða til þess að kaupmáttur í okkar helstu viðskiptalöndum dragist saman – og þá um leið útflutningstekjur þjóðarbúsins. „Verðbólguhorfur hafa sömuleiðis versnað að undanförnu og veiking krónu síðustu dagana ýtir undir vandann hérlendis. Þar við bætist að allt áhættumat gjörbreytist við atburði sem þessa – og þar með áhættuálag sem bitnar á hlutabréfum en einnig gjaldmiðlum eins og krónunni.“

Seðlabanki Íslands beitti ítrekuðum inngripum á gjaldeyrismarkaði í gær, eins og Innherji greindi frá, til að vega á móti miklum þrýstingi til lækkunar á gengi krónunnar en hún féll engu að síður í verði um liðlega 1,5 til 1,9 prósent gagnvart evrunni og Bandaríkjadal. Mikil gengisstyrking krónunnar frá áramótum – hún hafði meðal annars hækkað um nærri 5 prósent gegn evrunni – er núna að mestu gengin til baka.

Seðlabankinn seldi gjaldeyri – og keypti þá um leið krónur á móti – fyrir samtals 48 milljónir evra, jafnvirði um 7 milljarða íslenskra króna, en það mun vera ein mesta gjaldeyrissala hans á millibankamarkaði með gjaldeyri á einum degi frá því í ársbyrjun 2009.

Stóraukin fjárfesting í orkugjöfum jákvæð fyrir Ísland

Stefán Broddi bætir því við að hafa verði í huga að hlutabréfamarkaðurinn hér heima hafi átt erfitt uppdráttar í haust og vetur, eftir mjög gott ár fram að því, en Úrvalsvísitalan hækkaði um liðlega 33 prósent á árinu 2021. „Verðbólga, vaxtahækkanir og annað peningalegt aðhald koma illa við hlutabréfaverð þó svo rekstur félaga hafi líklega gengið betur en flestir reiknuðu með. Innrásin í Úkraínu kom síðan ofan í þá stöðu,“ segir hann, og bætir við:

Verri sviðsmyndin er áframhaldandi óvissa og mjög snúin staðan með minnkandi alþjóðlegum viðskiptum, háu hrávöruverði og mögulega skorti á sumum vörum.

„Mér finnst nokkuð ljóst að atburðarásin í Úkraínu ræður mestu um þróun næstu daga og vikur. Hún varpar skugga á allt annað. Til lengri tíma er framundan veruleg aukning útgjalda til varnarmála í heiminum og líklega stóraukin fjárfesting í orkugjöfum með samsvarandi hagvaxtaráhrifum í okkar helstu viðskiptalöndum. Ég sé ekki að sú þróun sé neikvæð fyrir Ísland.“

Á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd í síðustu viku sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að Ísland yrði ekki fyrir jafn beinum efnahagsáhrifum af Úkraínustríðinu og aðrar Evrópuþjóðir. Hann benti á að verulega hefði dregið úr viðskiptum við Rússland frá árinu 2014 og að íslensk heimili horfðu ekki fram á aukinn kostnað við húshitun eins og þau fjölmörgu heimili í Evrópu sem kynt eru með jarðgasi frá Rússlandi.

Hækkun á eldsneytisverði gæti hins vegar sett strik í reikning ferðaþjónustunnar að sögn seðlabankastjóra. „Hækkun á eldsneytisverði hefur áhrif á flug til landsins og það verður að hafa í huga að þessi mikli vöxtur í ferðaþjónustu á árunum 2014 til 2018 var að miklu leyti keyrður áfram af lágu olíuverði. Hátt olíuverð mun hafa áhrif á ferðaþjónustuna,“ sagði Ásgeir.


Tengdar fréttir

Innrásin í Úkraínu hefur víðtæk áhrif á hrávörumarkaði

Áhrifin sem innrás Rússa í Úkraínu hefur á hrávörumarkaði eru víðtæk og einkennast af töluverðri óvissu sem endurspeglast í miklum sveiflum. Þetta segir Brynjólfur Stefánsson, sjóðstjóri hjá Íslandssjóðum, en hann var áður yfir afleiðubók hráolíu hjá fjárfestingabankanum Morgan Stanley.

Óvissa umlykur mikilvægan markað fyrir íslenskar uppsjávarafurðir

Útflutningshagsmunir Íslands í Úkraínu hafa aukist verulega á síðustu árum. Íslensk sjávarútvegsfélög, sem hafa aukið sölu þangað með beinum og óbeinum hætti til að fylla í skarð Rússlands, geta þurft að koma afurðum sínum í verð á öðrum mörkuðum á meðan óvissa umlykur Úkraínumarkað.






×