Fótbolti

„Það mikilvægasta er að við komumst áfram“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mohamed Salah fékk tækifæri til að skora fyrir Liverpool í kvöld, en liðið er á leið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar þrátt fyrir tap.
Mohamed Salah fékk tækifæri til að skora fyrir Liverpool í kvöld, en liðið er á leið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar þrátt fyrir tap. Chris Brunskill/Fantasista/Getty Images

Mohamed Salah, framherji Liverpool, var nokkuð kátur eftir leik liðsins gegn Inter í Meistaradeild Evrópu. Þrátt fyrir tap fór liðið áfram í átta liða úrslit og Salah segir það vera það mikilvægasta.

„Inter er erfitt lið að spila á móti. Okkur tókst sem betur fer að vinna útileikinn og það mikilvægasta er að við komumst áfram,“ sagði Egyptinn að leik loknum.

Salah fékk sín færi til að skora í leiknum en í kvöld var þetta stöngin út hjá honum, bókstaflega. Hann átti tvö skot í stöng, en segist ekki vera að pirra sig á því.

„Ég skaut tvisvar í stöngina, en það er allt í lagi. Kannski skora ég þrennu í næsta leik. Við töpuðum þessum leik í kvöld og kannski mun það ýta aðeins á okkur og þetta var góður leikur til að læra af.“

Liverpool á góða möguleika á að vinna allt sem hægt er að vinna á þessu tímabili. Liðið tryggði sér sigur í enska deildarbikarnum á dögunum, situr í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er nú komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Salah segir að liðið muni berjast fyrir þessum titlum.

„Það vilja allir vinna Meistaradeildina og úrvalsdeildina og við munum berjast um báða þessa tilta. Við sjáum til,“ sagði Salah að lokum.


Tengdar fréttir

Liverpool fór áfram þrátt fyrir tap

Liverpool er á leið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þrátt fyrir 1-0 tap gegn Ítalíumeisturum Inter í kvöld. Liverpool vann fyrri leik liðanna 2-0 og fer því áfram eftir samanlagðan 2-1 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×