Þetta er á meðal þess sem kemur fram í kynningum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og Samtök atvinnulífsins (SA) útbjuggu fyrir fjárlaganefnd Alþingis.
„Lagerinn af auglýstum eignum er óðum að tæmast,“ segir í kynningu SA en ekki hafa verið færri eignir á sölu frá því mælingar hófust. SA bendir jafnframt á að sterkir eftirspurnarkraftar, svo sem vaxtalækkanir, vanmetin fólksfjölgun og sértækar aðgerðir stjórnvalda, hafi verið að verki á síðustu árum.
„Ekki hefur verið byggt nægilega mikið til að mæta þessari þörf sem hefur leitt til mikilla verðhækkana og uppsafnaðrar íbúðaþarfar,“ segir í kynningu SA.
Vísitala íbúðaverðs fyrir höfuðborgarsvæðið hækkaði um 1,7 prósent í janúar og er árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu komin rétt yfir 20 prósent. Húsnæðiskostnaður sem hlutfall af ráðstöfunartekjum mælist nú talsvert yfir meðaltali Evrópusambandsríkja.
Sveitarfélög áætla að byggja þurfi 3.500 á ári næstu fimm árin en þá er ekki tekið tillit til uppsafnaðrar íbúðaþarfar. Fjöldi fullkláraðra íbúða fer hins vegar fækkandi – spáð er að 3.000 nýjar íbúðir komi inn ár markaðinn í ár og um 2.800 í næsta ári – og því horfur á að framboð nái ekki að svala árlegri íbúðaþörf.
HMS segir mikilvægt að tryggja stöðuga uppbyggingu íbúða til að koma í veg fyrir að fasteignaverð haldi áfram að „hækka óhóflega og skerða lífskjör almennings.“
Sterkar vísbendingar eru um að einfalda megi regluverkið um uppbyggingu íbúða. SA bendir á að af 190 löndum sé Ísland í 72. sæti þegar kemur að því hversu flókið er að fá byggingaleyfi, langneðst allra Norðurlanda.
Þá er byggingakostnaður nærri 30 prósentum hærri en meðaltalið í Evrópu. Til að lækka þennan kostnað þarf að mati SA að stytta ónauðsynlegar tafir í ferlinu, allt frá skipulagi til framkvæmdatíma.
„Byggja þarf meira, hraðar og á hagkvæmari hátt svo dragi úr hækkun húsnæðisverðs og jafnvægi skapist á húsnæðismarkaði,“ segir í kynningu SA.
HMS tekur í sama streng en að mati stofnunarinnar þarf að „hraða skipulagsferlum, einfalda regluverk í samvinnu við sveitarfélög og stuðla samræmdari afgreiðslu skipulags og byggingarleyfa.“