Þetta kemur fram í nýju verðmati Jakobsson Capital en þar bent á að Kvika hafi eignast stóra stöðu í hlutabréfum við sameiningu við TM fyrir um ári síðan. Eign Kviku í hlutabréfum nam 9,2 prósentum af heildareignum félagsins í árslok 2021 sem er mun meira en hjá hinum bönkunum en staða þeirra í hlutabréfum „er lítil niður í að vera hverfandi,“ segir í verðmatinu, sem Innherji hefur undir höndum og var birt eftir lokun markaða í gær.
Verðmatsgengi Kviku er nú 27,5 krónur á hlut, lækkar lítillega frá fyrra mati, sem gefur bankanum markaðsvirði upp á 134,3 milljarða króna. Það er um 28 prósentum hærra en núverandi markaðsgengi bankans, sem stóð í 21,6 krónum á hlut við lokun markaða í dag, en það hækkaði um tæplega 5 prósent í um 1.140 milljóna króna veltu í Kauphöllinni, mest allra félaga. Hlutabréfaverð Kviku hefur hins vegar lækkað um liðlega fjórðung frá því um miðjan nóvember í fyrra, þegar það stóð hvað hæst, sem er mun meiri lækkun í samanburði við hina bankanna á markaði.
Stór hluti eigin fjár Kviku er óefnisleg eign, eða um 31 milljarður króna, en sé leiðrétt fyrir því lækkar verðmatsgengið niður í 23 krónur á hlut.
Íslensk hlutabréf skiluðu afar góðri ávöxtun í fyrra – Úrvalsvísitalan hækkaði um 33 prósent – og námu fjárfestingatekjur Kviku tæplega 5,7 milljörðum króna borið saman við rúmlega 0,8 milljarða árið 2020. Afkomuhlutfall meira en tvöfaldaðist á milli ára og var 32,4 prósent á árinu 2021. „Þannig útskýrist tæplega helmingur af auknum fjárfestingartekjum af stærri stöðu í hlutabréfum og rúmlega helmingur af hærri ávöxtun. Ljóst er að afkoma hlutabréfa mun ekki alltaf vera svona góð,“ segir í greiningu Jakobsson.
Virkur vaxtamunur Kviku var 5,2 prósent í fyrra samanborið við 1,8 prósent árið áður. Er það mikil hækkun frá síðustu árum þegar bankinn gat vart náð slíkum vaxtamun upp fyrir 2 prósent vegna samsetningu á efnahagsreikningnum. Þessi breyting er sögð hafa aukið virði Kviku um 19 milljarða.
„Kviku vantaði tekjuberandi eignir sem félagið fékk við yfirtöku á Lykli. Fjármögnun Kviku er mun hagstæðari en fjármögnun Lykils og hafa skuldir Lykils verið að stórum hluta greiddar upp. Fjármögnun á innlánum eða með iðgjöldum er mjög hagkvæm fjármögnun. Samkvæmt fjárfestakynningu náði Kvika samlegðaráhrifum upp á 900 til 1.050 milljónir króna á síðasta ári og var það í gegnum efnahagsreikning sem sú samlegð náðist,“ útskýra greinendur Jakobsson.
Þá er bent á að miklar sveiflur á hlutabréfamarkaði, eins og hafa einkum verið á síðustu vikum, geti haft talsverð áhrif á afkomu Kviku vegna stórrar stöðu í hlutabréfum. Í greiningu Jakobsson er gert ráð fyrir að hlutabréf félagsins skili 2,1 milljarði króna á þessu ári, sem er til jafns við ávöxtunarkröfu á eigið fé upp á 9,25 prósent.
Í verðmatinu segir ljóst að vægi hlutabréfa eða verðbréfa sé „fullmikið“ í efnahagsreikningi bankans og bent á að stjórnendur ætli að draga úr því með kaupum á 80 prósenta hlut í breska lánafyrirtækinu Ortus sem voru kláruð í liðnum mánuði en það er með lánasafn upp á um 20 milljarða króna. Með þeim kaupum mun lánastarfsemi Kviku sem hlutfall af heildareignum hækka í 35 prósent en í árslok 2020 var það 24 prósent. „Það er töluverð breyting,“ útskýra greinendur Jakobsson, „en útlán Kviku er fyrst og fremst til skammtíma í formi bíla- og brúarlána sem bera frekar hátt vaxtaálag.“
„Vægi útlána og verðbréfa sem bera fremur háa ávöxtun mun fara upp í 58 prósent í kjölfar kaupa á Ortus. Það hlutfall var 39 prósent árið 2020. Kvika reiknar með að Ortus muni skila um 900 milljóna króna hagnaði árlega. Sömuleiðis hefur „ódýr“ fjármögnun aukist á kostnað dýrari fjármögnunar. Innlán, vátryggingarskuld, afleiður og skortstöður eru nú tæplega 80 prósent fjármögnunar en voru 65 prósent,“ segir í verðmatinu.
Tæplega helmingur af auknum fjárfestingartekjum útskýrist af stærri stöðu í hlutabréfum og rúmlega helmingur af hærri ávöxtun. Ljóst er að afkoma hlutabréfa mun ekki alltaf vera svona góð.
Samkvæmt rekstraráætlun Jakobsson Capital er gert ráð fyrir að hagnaður Kviku fyrir skatta verði 8,6 milljarðar á þessu ári en í lok spátímans – á árinu 2026 – verði hann kominn í 10,8 milljarða. Kvika á töluvert yfirfæranlegt skattalegt tap sem mun nýtast félaginu til ársins 2024. Arðsemi eigin fjár mun nema frá um 10 prósentum upp í 12 prósent en ef litið er til eiginfjár á áhættugrunni mun arðsemin nema 29,5 prósentum.
Hagnaður Kviku á síðasta ári nam 10,7 milljörðum, borið saman við 2,3 milljarða á árinu 2020, og var arðsemi á eigið fé um 35 prósent. Afkomuspá bankans fyrir þetta ár gerir ráð fyrir hagnað upp á 8 til 9 milljarða sem samsvarar 18,3 til 20,6 prósenta arðsemi á efnislegt eigið fé.
Kvika hefur skuldbundið sig til að gefa út hlutafé að nafnvirði 139 milljónir króna í tengslum við áskriftarréttindi starfsmanna. Útgefið hlutafé mun við það aukast um 2,9 prósent. „Áhrif þynningar vegna útgáfu kauprétta til starfsmanna eru orðin hverfandi en greiðsla upp á 1.250 milljónir fæst á móti útgefnu hlutafé vegna kaupauka,“ segir í verðmati Jakobsson.
Stærstu hluthafar Kviku banka eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), fjárfestingafélagið Stoðir og Lífeyrissjóður verslunarmanna.