Í þættinum Um land allt á Stöð 2 tökum við púlsinn á samfélagsumræðunni fyrir vestan. Okkur skilst að í kaffispjalli karlanna séu þau mál krufin sem heitast brenna jafnan á íbúum.

Hér spyrja menn einnig hvernig eigi að tryggja raforku fyrir ný fyrirtæki, eins og laxasláturhús sem fiskeldisfyrirtækið Artic Oddi áformar að koma á fót.
„Við höfum hins vegar átt undir högg að sækja þegar við höfum verið að berjast fyrir okkar raforkuöryggi. Þar höfum við mætt óvígum her andstæðinga okkar í þeim efnum,“ segir Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, og nú talsmaður fiskeldisgeirans.
„Við erum að sjá þessa mánuði og árin hreinlega nýja atvinnugrein verða hérna til sem er að stefna í það að verða stærri að umfangi og veltu heldur en sjávarútvegurinn. Þar á ég við laxeldi.
Það sjáum við og vitum að mun gjörbreyta öllu, líka hér á norðanverðum Vestfjörðum. Og hælbítarnir, sem hafa verið svona í hælnum á okkur að tefja þetta með öllum hætti, þeir munu verða undir. Okkar málstaður er svo góður,“ segir Einar.

Á kaffistofunni spyrjum við um „liðið fyrir sunnan“ og hvort „101 Reykjavík“ sé nánast orðið skammaryrði hér fyrir vestan.
„Nei, nei, nei,“ svara karlarnir í einum kór.
„En við viljum samt að þeir ráði ekki hvort það kemur laxeldi, raforka eða eitthvað annað til okkar,“ segir Runólfur Pétursson og kveðst sammála stefnu Pírata um að fjórðungarnir og byggðarlögin eigi að fá að ráða sínum málefnum en ekki Alþingi.
„Og ekki að einhverjir í Reykjavík ráði því hvernig ég ætla að lifa lífinu hér. Ég er ekki að skipta mér af því í Reykjavík."

„Við erum bara komin í það að það er ekki Alþingi sem ræður. Það eru ráðuneytin og stofnanirnar sem ráða öllu. Og ef það er einhver maður innan stofnunar, eins og hefur verið að koma í ljós, sem er á móti þessu, þá getur hann bara tafið mál.
Heldur þú að það sé eðlilegt að þetta skuli taka svona langan feril? Sérðu Teigsskóg. Er það eðlilegt að það skuli taka 10-12 ár að fara í ferli til að mega byrja. Kalla menn það eðlilegt?“
„25 ár“ skýtur einhver inn í.
„Er það eðlilegt, eins og með laxeldið?“ spyr Runólfur.
Tvo þætti um samfélagið í Bolungarvík má nálgast á streymisveitunni Stöð 2+. Hér má sjö mínútna kafla úr seinni þættinum: