Enski boltinn

Lengsta vítakeppni sögunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þeir fáu áhorfendur sem voru á leik Washington og Bedlington urðu vitni að sögulegri vítaspyrnukeppni.
Þeir fáu áhorfendur sem voru á leik Washington og Bedlington urðu vitni að sögulegri vítaspyrnukeppni. getty/Ryan Pierse

Hvorki fleiri né færri en 54 vítaspyrnur þurfti til að knýja fram sigurvegara í leik tveggja enskra utandeildarliða í gær.

Lið Washington og Bedlington leiddu saman hesta sína í Sunderland í Ernest Armstrong Memorial bikarnum í gær. Aðeins fjörutíu manns sáu leikinn sem fór í sögubækurnar.

Eftir níutíu mínútur voru liðin jöfn, 3-3. Bradley Chisholm var hetja Washington en hann jafnaði metin úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Því réðust úrslitin í vítakeppni. Og hún dróst svo sannarlega á langinn.

Eftir 54 víti fagnaði Washington loks sigri, 25-24. Leikmenn liðanna skoruðu úr 49 af vítunum sem tekin voru.

Þetta er met yfir flestar spyrnur í einni vítakeppni. Samkvæmt heimsmetabók Guiness var gamla metið 48 víti. Það var í leik í namibísku bikarkeppninni 2005. KK Palace vann þá Civics, 17-16.

Gamla enska metið voru 44 spyrnur í leik Old Wulfrunians og Lane Head. Old Wulfrunians vann vítakeppnina, 19-18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×