Enski boltinn

Salah ætlar ekki að samþykkja nýjan samning

Atli Arason skrifar
Mohamed Salah, leikmaður Liverpool.
Mohamed Salah, leikmaður Liverpool. Getty Images

Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, mun ekki samþykkja nýtt samningstilboð Liverpool samkvæmt félagaskipta sérfræðingnum Fabrizio Romano.

Salah vill vera áfram hjá Liverpool samkvæmt Romano en samningaviðræður Salah við félagið fóru í strand í desember þar sem Salah vill fá betri samning en það sem Liverpool býður honum.

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur ekki miklar áhyggjur af stöðu mála. „Ég held að Mo [Salah] búist við því að félagið sýni metnað og Liverpool gerir það. Umfram allt er þetta ákvörðun Mo. Félagið hefur gert það sem það getur gert. Frá mínu sjónarhorni er allt í góðu. Við verðum bara að bíða og sjá, við þurfum ekki að drífa okkur í þessum málum,“ sagði Klopp

Eftir ummæli Klopp birti Ramy Abbas Issa, umboðsmaður Salah, tíst með hláturs lyndistáknum. Telja sérfræðingar það skýr skilaboð um stöðu samnings viðræðna leikmannsins við félagið.

Samningur Salah er í gildi út næsta tímabil, árið 2023. Liverpool verður því að ákveða hvort það eigi að borga Salah það sem hann vill fá eða selja hann í sumar svo félagið eigi ekki í hættu að missa hann frítt þegar samningur hans rennur út á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×