Innlent

Reykjavík í rusli

Jakob Bjarnar skrifar
Í hverfishópum á Facebook er fólk að kvarta undan því að rusl fjúki nú um höfuðborgina sem aldrei fyrr.
Í hverfishópum á Facebook er fólk að kvarta undan því að rusl fjúki nú um höfuðborgina sem aldrei fyrr.

Flestar endurvinnslutunnur í Reykjavík, þar sem íbúar reyna eftir föngum að safna saman pappa og plasti, eru sneisafullar enda eru vikur síðan þær hafa verið tæmdar. Það þýðir svo að óþrifalegt er orðið í höfuðborginni.

Í ýmsum hverfishópum á Facebook er nú kvartað undan því að rusl fjúki um höfuðborgina sem aldrei fyrr. Þingholt og nágrenni er einn slíkur en þar hafa verið birtar myndir af rusli sem fýkur inn í garða og um stræti.

„Kæru nágrannar vil benda á að ef gámarnir á Freyjutorgi eru fullir þá verður maður því miður að leita annað með ruslið sitt. Nú fýkur ruslið út um allt og safnast fyrir við húsin og í görðum og við sem hér búum þurfum að tína upp þetta rusl og henda þvi aftur,“ segir málshefjandi Urður Urður þar um þennan vanda. En höfuðborgin er allt annað en snyrtileg um þessar mundir.

Í öðrum hverfishópi sem heitir Vesturbærinn vekur Jón Páll Ásgeirsson máls á einmitt þessu:

„Hér á Flyðrugranda hefur ekki verið tekið rusl, plast og pappi í fleiri vikur og allar tunnur löngu fullar, búið var að setja slatta af því í glæra poka sem ekki komst í tunnurnar, vitit menn þegar loksins kom bíll á svæðið, þann 8. tóku þeir ekki ruslið í tunnunum því pokarnir voru ofan á þeim, skyldu allt eftir og koma næst 28. mars,“ segir Jón Páll og bætir við háðslega: „Það er aldeilis flott þjónusta hjá bænum.“

Nú þegar óveðrið hefur skollið gæti orðið erfitt að koma böndum á ruslið sem ýmist fýkur í garða eða á haf út.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×