Innlent

Slökkvi­lið í­trekað kallað út vegna vatns­leka

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Slökkvilið var kallað út vegna vatnsleka í Tennishöllinni í Kópavogi í gær.
Slökkvilið var kallað út vegna vatnsleka í Tennishöllinni í Kópavogi í gær. Vísir

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast síðasta sólarhringinn þegar vatnsveður gekk yfir borgina. Mikið var um vatnsleka og samtals voru dælubílar slökkviliðsins kallaðir tólf sinnum út til að sinna slíkum verkefnum.

Að auki voru 126 sjúkraflutningar farnir í heildina í gær.

Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu virðist hafa verið fremur rólegt, en í skýrslu lögreglu segir að lögregla hafi verið kölluð út á krá í austurbænum þar sem tilkynnt hafði verið um átök. Þegar lögreglu bar að garði voru þó allir farnir og enginn sem vildi ræða málið við lögreglumennina.

Þá var tilkynnt um rúðubrot í verslun í vesturborginni og um innbrot í geymslur í fjölbýlishúsi. Þjófarnir hlupu á brott þegar íbúar urðu þeirra varir.

Í Hafnarfirði var síðan tilkynnt um innbrot í fyrirtæki og er málið í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×