Neytendur

Vilja nú fjöru­tíu milljónum meira fyrir hús sem var keypt í júlí

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Eignin er í slæmu ásigkomulagi en hefur þó hækkað um rúmar tuttugu milljónir króna í verði frá því hún var sett á sölu í október.
Eignin er í slæmu ásigkomulagi en hefur þó hækkað um rúmar tuttugu milljónir króna í verði frá því hún var sett á sölu í október. Vísir/Vilhelm

Hús á Lindarbraut á Seltjarnarnesi, sem hefur verið á sölu í fimm mánuði, hefur hækkað um rúmar tuttugu milljónir króna í verði frá því það var sett á sölu. Húsið er 183,4 fermetrar og er til sölu fyrir 192 milljónir króna. 

Húsið var fyrst sett á sölu í október og var uppsett verð 170 milljónir. Húsið var byggt árið 1973 og eru þar fimm svefnherbergi, þvottahús og bílskúr, þar sem gert er ráð fyrir tveimur stúdíóíbúðum. 

Um er að ræða einbýlishús á einni hæð. Fermetraverð hússins var um 927 þúsund krónur á hvern fermetra í október en er nú komið upp í tæpar 1,05 milljónir króna. Skráningu hússins á fasteignavef Vísis fylgja ekki myndir innan úr húsinu, en nokkrar utan af því. 

Eins og sjá má á myndinni þarfnast eignin töluverðs viðhalds.Vísir/Vilhelm

Vísir fjallaði um söluna í október og sagði þá í auglýsingunni að öll eignin þarfnaðist endurbóta, garðurinn væri í órækt og áhugasamir hvattir til ítarlegrar skoðunar á eigininni. Í nýrri auglýsingu segir að kominn sé tími á ýmist viðhald á eigninni. 

Netverjar hafa einhverjir furðað sig á hækkuninni, enda einsdæmi að hús sem ekki selst og er í slæmu ásigkomulagi hækki svo mikið í verði á svo stuttum tíma. 

Athygli er vakin á því í umræðu á Twitter að eigandi hússins keypti það í júlí í fyrra. Þá var kaupverðið 156 milljónir króna. Verðið hefur því hækkað um 36 milljónir frá því í júlí 2021. 

„Ég tek eftir því að þetta hús kemur aftur og aftur inn og er alltaf að hækka í verði,“ segir Theódór Ingi Ólafsson áhugamaður um fasteignir í samtali við Vísi. 

Hann segist ekki hafa tekið eftir því að aðrar eignir hafi hækkað svo í verði þrátt fyrir að hafa ekki selst.

„Yfirleitt þegar íbúðir og hús hafa verið lengi á sölu finnst mér þær yfirleitt lækka í verði eftir því sem tíminn líður,“ segir Theódór. 

„Sérstaklega hús í slæmu ásigkomulagi.“

Hér má sjá auglýsinguna sem var tekin út eftir að fréttastofa hafði samband við fasteignasalann.Vísir/skjáskot

Fréttastofa leitaði svara um hækkandi verð eignarinnar hjá fasteignasalanum, sem tók eignina út af fasteignavefnum samstundis. 


Tengdar fréttir

Kalla eftir róttækum breytingum til að hraða uppbyggingu íbúða

Ef ætlunin er að byggja meira en 3.500 íbúðir á ári til þess að svala árlegri íbúðaþörf þarf grundvallarbreytingu í meðferð skipulagsmála og mikla einföldun á regluverki. Skipulagsferlar, eins og þeir eru í dag, koma í veg fyrir að byggðar verði nægilega margar íbúðir á næstu árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×