Í bréfi sem hún sendi Biden 10. mars síðastliðinn, og Reuters hefur undir höndum, segir Osmani að það sé hennar helsta forgangsmál að tryggja þjóðaröryggi Kósovó með inngöngu í NATO.
„Við trúum því og treystum að Bandaríkin muni nota leiðtogavald sitt til að styðja við bakið á Kósovó og hjálpa því við inngöngu í NATO,“ skrifar Osmani í bréfinu.
Yfirvöld í Washington hafa verið þau sem mest hafa stutt við bakið á Kósovó, bæði pólitískt og efnahagslega, síðan ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008. Osmani skrifar í bréfinu að hún hræðist að Rússar muni reyna, í nafni þess hve nýtt ríki Kósovó sé, að innlima það og allan Vestur-Balkanskagann.
Innganga í NATO ólíkleg vegna aðildarríkja sem viðurkenna ekki sjálfstæðið
Serbar hafa í gegn um tíðina verið mikil vinþjóð Rússa og stutt við þá í flestum alþjóðlegum deilumálum. Hvorki Serbía né Rússland viðurkenna sjálfstæði eða fullveldi Kósovó og yfirvöld í Moskvu komu í veg fyrir það á sínum tíma að Kósovó fengi inngengt í Sameinuðu þjóðirnar. Stjórnvöld í Serbíu líta á Kósovó sem hluta síns yfirráðasvæðis þó svo að engar opinberar stofnanir á vegum Serbíu séu starfandi í Kósovó.
Um fimmtíu þúsund Serbar sem búa í norðurhluta Kósovó, við landamærin að Serbíu, vilja vera hluti af Serbíu og að landamæri ríkjanna liggi þar sem þjóðirnar skiptist upp.
Hersveitir NATO hafa haft stöðuga viðveru í Kósovó síðan árið 1999, þegar NATO greip til aðgerða gegn Serbum vegna drápa þeirra á Albönum í borgarastyrjöldinni 1998-99.
Tilraunir Kósovó til að ganga til liðs við NATO gætu þá reynst nokkuð flóknar þar sem fjögur bandalagsríki NATO, Rúmenía, Grikkland, Spánn og Slóvakía,viðurkenna ekki sjálfstæði landsis.