Enski boltinn

Tíu leikmenn Everton unnu dramatískan sigur gegn Newcastle

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alex Iwobi skoraði markið mikilvæga fyrir Everton í kvöld.
Alex Iwobi skoraði markið mikilvæga fyrir Everton í kvöld. Stu Forster/Getty Images

Everton vann virkilega mikilvægan 1-0 sigur gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Fyrir leik var orðið ljóst að Everton þyrfti að fara að safna stigum ef liðið ætlar sér að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni. Það eina sem hélt Everton fyrir ofan fallsvæðið fyrir leik var markatalan.

Fyrri hálfleikur var heldur tíðindalítill og staðan því enn 0-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Það hitnaði þó í kolunum í síðari hálfleik, en aðeins nokkrum mínútum eftir að leikurinn var flautaður í gang á ný þurfti að gera hlé á leiknum. Þá hafði áhorfandi náð að koma sér inn á völlinn og binda sig við stöngina á marki Everton.

Nokkurn tíma tók að losa áhorfandan sem var í bol sem á stóð „Just Stop Oil,“ eða „Stöðvið olíu.“ Það tókst þó loks á endanum þegar vallarstarfsmenn sóttu stóru klippurnar og báru manninn af velli.

Gestirnir í Newcastle fengu nokkur fín færi til að brjóta ísinn, en inn vildi boltinn ekki. Ekki batnaði það fyrir heimamenn í Everton þegar miðjumaðurinn Allan fékk að líta beint rautt spjald á 83. mínútu fyrir brot á Allan Saint-Maximin þegar sá síðarnefndi hélt af stað í skyndisókn.

Eftir allar tafirnar sem höfðu orðið á leiknum var 14 mínútum bætt við. Gestirnir í Newcastle fengu því rúmlega tuttugu mínútur til að nýta sér liðsmuninn.

Það voru hins vegar heimamenn í Everton sem brutu loks ísinn á níundu mínútu uppbótartíma. Þar var á ferðinni Alex Iwobi eftir snoturt samspil við Dominic Calwert-Lewin.

Everton situr nú í 17. sæti deildarinnar með 25 stig eftir 27 leiki, þremur stigi fyrir ofan fallsvæðið. Newcastle situr hins vegar í 14. sæti með 31 stig og er liðið komið langleiðina með að tryggja áframhaldandi veru sína í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×