Viðskipti innlent

Eva Rós, Haf­steinn Gauti og Jóhann Óli til Deloitte Legal

Atli Ísleifsson skrifar
Eva Rós Haraldsdóttir, Hafsteinn Gauti Ágústsson og Jóhann Óli Eiðsson.
Eva Rós Haraldsdóttir, Hafsteinn Gauti Ágústsson og Jóhann Óli Eiðsson. Aðsend

Lögfræðingarnir Jóhann Óli Eiðsson, Hafsteinn Gauti Ágústsson og Eva Rós Haraldsdóttir hafa öll verið ráðin til lögmannsstofunnar Deloitte Legal.

Frá þessu segir í tilkynningu frá stofunni.  „Jóhann Óli kemur til Deloitte Legal frá Viðskiptablaðinu en þar hafði hann starfað frá vormánuðum 2019 sem blaðamaður og skrifaði einna helst um dómsmál, lögfræðitengd álitaefni og skattaréttarleg mál. Áður hafði hann verið frá 2014 á fréttastofu 365, þá bæði á Vísi og Fréttablaðinu, en fjölmiðlaferillinn hófst skömmu eftir lok grunnskóla hjá Fótbolta.net. Jóhann Óli lauk BA-prófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2019 og mun ljúka meistaranámi við sama skóla núna í vor.

Hafsteinn kemur til Deloitte Legal frá Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel. Hjá ESA starfaði hann á samkeppnis- og ríkisaðstoðarsviði. Þá hefur hann einnig gegnt hlutverki aðstoðarkennara hjá Háskóla Íslands. Helstu sérsvið Hafsteins eru samkeppnisréttur, ríkisaðstoðarréttur og Evrópuréttur og mun hann styðja við uppbyggingu þeirrar þjónustulínu innan Deloitte Legal. Hafsteinn lauk BA-prófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2018 og lauk meistaranámi árið 2020.

Eva Rós kemur til Deloitte Legal frá lögmannsstofunni BBA Fjeldco en þar hafði hún starfað frá ágúst 2020. Áður hafði hún verið hjá KPMG og eru hennar helstu sérsvið skattaréttur, bæði innlendur og alþjóðlegur, og félagaréttur. Þá býr Eva Rós yfir ríkri þekkingu á sviði virðisaukaskatts og mun hún styðja við frekari uppbyggingu þeirrar þjónustulínu innan Deloitte Legal. Eva Rós lauk BA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2018 og lauk meistaranámi árið 2020,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×