Sport

Svíar gætu sniðgengið HM ef Rússum og Hvít-Rússum verður ekki bannað að keppa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sænskt sundfólk gæti setið eftir heima þegar HM í sundi fer fram í Búkarest í júní.
Sænskt sundfólk gæti setið eftir heima þegar HM í sundi fer fram í Búkarest í júní. getty/Francois Nel

Svíar hafa bæst í hóp þjóða sem hóta að sniðganga HM í sundi í Rúmeníu í sumar ef íþróttafólki frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi verður heimilað að keppa þar.

Alþjóða sundsambandið, Fina, er eitt fárra íþróttasambanda sem hefur ekki enn bannað rússnesku og hvít-rússnesku íþróttafólki að keppa, undir hlutlausum fána, vegna stríðsins í Úkraínu.

Sviss, Pólland og Þýskaland hafa lýst yfir óánægju með að sundfólk frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi fái að keppa á HM. Og Svíþjóð hefur nú bæst í þann hóp.

„Við höfum sett pressu á Fina,“ sagði Mikael Jansson, forseti sænska sundsambandsins. Hann vildi þó ekki svara því hvort Svíar myndu standa við stóru orðin og láta hótunina um að sniðganga HM verða að veruleika.

Fina hefur ekki útilokað að banna rússnesku og hvít-rússnesku íþróttafólki að keppa á HM ef það ógnar öryggi annarra keppenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×