Körfubolti

Mál Sigurðar og ÍR alla leið í Hæstarétt

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson komst með ÍR í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins vorið 2019, fór svo til Frakklands í skamman tíma en samdi aftur við ÍR um haustið.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson komst með ÍR í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins vorið 2019, fór svo til Frakklands í skamman tíma en samdi aftur við ÍR um haustið. VÍSIR/DANÍEL

Hæstiréttur hefur samþykkt beiðni körfuknattleiksdeildar ÍR um að áfrýja dómi Landsréttar í máli Sigurðar Gunnars Þorsteinssonar sem dæmdar höfðu verið tæplega tvær milljónir króna vegna vangoldinna launa.

Sigurður, sem er landsliðsmaður í körfubolta, skrifaði undir samning til tveggja ára við ÍR haustið 2019 eftir stutta dvöl í Frakklandi. Hann náði hins vegar aðeins að spila nokkrar mínútur í fyrsta leik sínum það haust áður en hann sleit krossband í hné og gat því ekki spilað meira á tímabilinu, og fékk samningi sínum við ÍR rift vorið 2020.

Sigurður stefndi ÍR vegna vangoldinna launa tímabilið 2019-20 og byggði á því að samningurinn við ÍR gerði ráð fyrir að hann gæti orðið fyrir meiðslum við störf sín.

ÍR-ingar töldu hins vegar að þar sem ekki hafi orðið af vinnuframlagi Sigurðar hefði hann ekki unnið það verk sem samningurinn kvað á um.

Héraðsdómur dæmdi ÍR þann 17. nóvember árið 2020 til að greiða Sigurði 1.866.000 krónur auk dráttarvaxta og greiðslu málskostnaðar.

ÍR-ingar áfrýjuðu þeim dómi til Landsréttar sem staðfesti dóm Héraðsdóms 4. febrúar síðastliðinn. 

Nú er svo ljóst að málið fer fyrir æðsta dómsvald landsins.

„Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi meðal annars um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt,“ segir í ákvörðun Hæstaréttar.

Sigurður Gunnar gekk í raðir Hattar á Egilsstöðum eftir tímann hjá ÍR en er í dag leikmaður Tindastóls á Sauðárkróki.


Tengdar fréttir

ÍR riftir samningnum við Sigurð Gunnar

Sigurður Gunnar Þorsteinsson er án samnings eftir að ÍR rifti samningi við hann eftir leiktíðina í Dominos-deild karla sem var blásin af vegna kórónuveirunnar. Sigurður greindi fyrst frá þessu á Instagram-síðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×