Innlent

Þiggur ekki annað sætið á lista Sjálf­stæðis­flokksins

Eiður Þór Árnason skrifar
Áslaug Hulda Jónsdóttir hefur setið í bæj­ar­stjórn Garða­bæjar frá árinu 2010 og skipaði fyrsta sæti á fram­boðs­lista Sjálf­stæð­is­flokks­ins í Garða­bæ.
Áslaug Hulda Jónsdóttir hefur setið í bæj­ar­stjórn Garða­bæjar frá árinu 2010 og skipaði fyrsta sæti á fram­boðs­lista Sjálf­stæð­is­flokks­ins í Garða­bæ. Aðsend

Áslaug Hulda Jónsdóttir, sem hafnaði í öðru sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, hyggst ekki þiggja sætið en hún sóttist eftir því að leiða listann áfram.

Í tilkynningu segir Áslaug, sem er formaður bæjarráðs Garðabæjar, að öflugur hópur fólks hafi náð góðum árangri í prófkjörinu og framboðslistinn fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar verði sterkur. 

„Úrslitin voru hins vegar ekki þau sem ég hafði vonast eftir hvað mig varðar þótt litlu hafi munað. Framundan eru önnur verkefni sem ég hyggst einbeita mér að og um leið skapa rými fyrir nýtt fólk á listanum. Ég hef því ákveðið að þiggja ekki sæti á listanum.“ 

Mjótt var á munum en Almar Guðmundsson bar sigur úr býtum í prófkjörinu sem lauk þann 5. mars síðastliðinn með 832 atkvæði í 1. sæti. Áslaug var með 1032 atkvæði í 1.-2. sæti og næst kom Björg Fenger með 1153 atkvæði 1.-3. sæti.

Áslaug segist ætla að starfa áfram með Sjálfstæðisflokknum og halda áfram að hafa skoðun á sveitarstjórnarmálum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi setið einn í meirihluta bæjarstjórnar í Garðabæ.

„Garðabær verður áfram bærinn minn og Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram flokkurinn minn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×