Innherji

Tilboð frá 430 fjárfestum og minni afsláttur en í samskonar útboðum

Meginþorri verðbréfasjóða, fjársterkra einstaklinga og tryggingafélög, sem voru metnir langtímafjárfestar af hálfu Bankasýslunnar, fengu úthlutað bréfum í Íslandsbanka sem nam yfir 40 prósentum af þeirri upphæð sem þeir skráðu sig fyrir í lokuðu útboði til fagfjárfesta sem lauk í gærkvöldi þegar ríkið seldi 22,5 prósenta hlut fyrir 53 milljarða.

Hörður Ægisson skrifar
Í umræðum á Alþingi í dag sagði Bjarna Benediktssonar að stjórnvöld hefðu lagt áherslu á að dreift og heilbrigt eignarhald við söluferlið. „Það þýðir meðal ann­ars að þú leggur þig ekki eftir lang­hæsta verð­inu.“

Meginþorri verðbréfasjóða, fjársterkra einstaklinga og tryggingafélög, sem voru metnir langtímafjárfestar af hálfu Bankasýslunnar, fengu úthlutað bréfum í Íslandsbanka sem nam yfir 40 prósentum af þeirri upphæð sem þeir skráðu sig fyrir í lokuðu útboði til fagfjárfesta sem lauk í gærkvöldi þegar ríkið seldi 22,5 prósenta hlut fyrir 53 milljarða.

Aðrir innlendir fjárfestar, meðal annars lífeyrissjóðir, þurftu hins vegar almennt að sæta hlutfallslega meiri skerðingum, að sögn viðmælenda Innherja á fjármálamarkaði, en líta verður til þess að lífeyrissjóðir sækjast eftir því að kaupa mun stærri hlut í krónum talið en flestir aðrir sem skiluðu inn tilboðum í útboðinu.

Heildarfjárhæð áskrifta sem bárust í söluferlinu, sem hófst formlega eftir lokun markaða í gær og lauk fyrir opnun Kauphallarinnar í morgun, var margfalt meiri en sú upphæð sem ríkið seldi að lokum í bankanum. Samkvæmt upplýsingum Innherja bárust tilboð frá um 430 fjárfestum á því verði sem var ákvarðað í útboðinu – 117 krónur á hlut – en stór hluti þeirra hafði einnig tekið þátt í frumútboði Íslandsbanka um mitt síðasta ár þegar hann var skráður á markað.

Ríkissjóður hefur núna, í tveimur áföngum, selt samanlagt 57,5 prósenta hlut í bankanum fyrir 108 milljarða króna til viðbótar við að fá í sinn hlut arðgreiðslu upp á tæplega 8 milljarða sem var samþykkt á aðalfundi í síðustu viku. Markaðsvirði eftirstandandi eignarhlutar, sem nemur 42,5 prósentum, er í dag um 106 milljarðar en ríkið áformar að selja allan hlut sinn í skrefum fyrir árslok 2023.

Verðið sem ríkissjóður seldi hlut sinn á, sem jafngilti genginu 1,25 miðað við bókfært eigið fé bankans, var rétt rúmlega 4 prósentum lægra en markaðsgengið – 122 krónur á hlut – var þegar söluferlið fór af stað við lokun markaða í gær. Sá „afsláttur“ var í takt við það sem búast mátti við, jafnvel minni að mati viðmælenda Innherja, þegar jafn stór hlutur er seldur með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi á markaði. Hlutabréfaverð bankans hækkaði um 2 prósent í viðskiptum í Kauphöllinni í dag og stóð gengið í 124,6 krónum á hlut við lokun markaða.

Evrópska fjármálafyrirtækið STJ Advisors, ráðgjafi Bankasýslunnar í ferlinu, bendir á að í þeim útboðum sem hafa farið fram hjá skráðum evrópskum félögum á þessu ári með sambærilegu fyrirkomulagi hafi afslátturinn verið að meðaltali um 6,4 prósent. Eftir innrás Rússa í Úkraínu, sem hefur aukið óvissu og veltu á mörkuðum, hefur afslátturinn í slíkum útboðum verið enn meira, eða um 8,4 prósent að jafnaði.

Tilboðsgjafar sem voru metnir skammtímafjárfestar, eins og meðal annars svonefndir spákaupmenn og fjárfestingarsjóðir sem notast við mikla skuldsetningu í kaupum sínum á hlutabréfamarkaði, þurftu að sæta umtalsvert meiri skerðingum en aðrir fjárfestar, samkvæmt upplýsingum Innherja, og fengu að jafnaði úthlutað til sínum bréfum sem nam um 15 prósentum af þeirri fjárhæð sem þeir óskuðu eftir.

Íslenskir lífeyrissjóðir, sem áttu fyrir samanlagt um 16 prósenta hlut í bankanum, fengu úthlutað stórum hluta þeirra bréfa sem ríkissjóður selur í þessum áfanga en allir stærstu sjóðirnir – LSR, LIVE og Gildi – sóttust meðal annars eftir því að auka við eignarhlut sinn í bankanum. Samkvæmt heimildum Innherja námu úthlutanir til lífeyrissjóða að jafnaði um 30 prósent af þeirri upphæð sem þeir skráðu sig fyrir í útboðinu.

Mikil eftirspurn var einnig hjá erlendum fjárfestingarsjóðum í ferlinu og fengu þeir að kaupa talsvert stóran hluta af því sem ríkið seldi en nokkur munur var á því hversu mikið slíkir sjóðir voru skertir. Við úthlutun til þeirra, eins og hjá öðrum sem tóku þátt í útboðinu, var þannig einkum litið til þess hvort þeir væru taldir langtímafjárfestar eða ekki en slíkir erlendir sjóðir áttu samanlagt um 7 prósenta hlut í bankanum í árslok 2021. Það er litlu minna en þeir höfðu keypt í frumútboði Íslandsbanka í júní í fyrra.

Sú leið sem var valin við söluna í þetta sinn, eins og hafði meðal annars verið kynnt ítarlega í greinargerð fjármálaráðuneytisins í ársbyrjun þegar ákvörðun um framhald ferlisins var boðuð, var fyrrnefnt tilboðsfyrirkomulag (e. accelerated bookbuilt offering). Það er lang algengasta aðferðin sem ráðandi hluthafar nýta sér við sölu á stórum hlutum í skráðum félögum á evrópskum hlutabréfamarkaði.

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri stofnunarinnar.fréttablaðið/stefán

Sala með tilboðsfyrirkomulagi fer fram með þeim hætti að söluráðgjafar kanna áhuga hæfra fjárfesta á einum eða tveimur dögum og afla þannig upplýsinga um vilja þeirra til að taka þátt í útboði, með svipuðu fyrirkomulagi og var gert í frumútboði Íslandsbanka. Á grundvelli þessara upplýsinga er svo tekin ákvörðun um hvort að ráðist verði í útboð og hversu stór hlutur verði seldur.

Samkvæmt heimildum Innherja lagði Bankasýslan, ásamt ráðgjöfum sínum, upp með að selja 15 prósenta hlut í upphafi vikunnar og í kjölfarið var haft samband við stóra lykilfjárfesta, bæði innlenda og erlenda, þar sem áhugi þeirra var kannaður – samhliða því að þeir urðu tímabundnir innherjar – og hversu mikið þeir kynnu að vera reiðubúnir að kaupa á tilteknu verði.

Eftir að hafa aflað sér þeirra upplýsinga var ljóst að Bankasýslan hafði fengið fjárfestaloforð (e. soft commitment) fyrir því að selja að lágmarki 20 prósenta hlut í bankanum og í framhaldinu var því ákveðið að tilkynna um það eftir lokun markaða í gær að stofnunin hefði ákveðið að setja af stað söluferli þar sem slíkur hlutur væri að minnsta kosti boðin til sölu.

Næstu klukkutíma á eftir höfðu söluráðgjafar í ferlinu samband við fjölda fagfjárfesta þar sem tilboðsbókin er stækkuð enn frekar og að lokum var ákvarðað að hluturinn sem yrði seldur væri 22,5 prósent og útboðsgengið ákveðið í 117 krónum á hlut. Það var byggt á þeim verðtilboðum sem bárust en einnig tekið tillit til gæða og samsetningu fjárfestahópsins sem skilaði inn áskriftum.

Bankasýslan hefur núna einnig skuldbundið sig til að selja ekki frekari hlut í bankanum 90 daga eftir að viðskiptin ganga í gegn í næstu viku, nema með samþykki umsjónaraðila útboðsins eða í tengslum við hvers konar endurkaup Íslandsbanka á eigin hlutum á tímabilinu.

Í umræðum á Alþingi í dag kom fram í ræðu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að stjórnvöld hefðu lagt áherslu á dreift og heilbrigt eignarhald við söluferlið. „Það þýðir meðal ann­ars að þú leggur þig ekki eftir lang­hæsta verð­inu enda hefur svona fyr­ir­komu­lag, svona sala aldrei farið fram án afsláttar neins staðar í heim­in­um,“ sagði Bjarni, og benti á að þegar sala færi fram með til­boðs­fyr­ir­komu­lagi þá hlyti það alltaf að þurfa að ger­ast á milli þess að mark­aðir lok­uðu þar til þeir opn­uðu næsta dag.

„Þegar við veltum því fyrir okkur hvort það hefði mögu­lega verið hægt að fá hærra verð þá þurfum við aðeins að spyrja okkur hvort við meintum það sem við sögð­um, að minnsta kosti get ég sagt fyrir mitt leyti að ég meinti það sem ég sagði, að ég legði áherslu á margt annað heldur en ein­göngu bara hæsta verð,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

En af hverju er jafnan veittur afsláttur af gengi bréfa miðað við síðasta markaðsgengi þegar stórir hlutir er seldir á markaði með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi? Bankasýslan bendir á það í greinargerð fjármálaráðherra síðastliðinn janúar að niðurstöður úthlutunar þurfi að liggja fyrir áður en markaðir opna daginn eftir og því gefist lítill tími til að ákveða nákvæma úthlutun.

„Verð er ákveðið með hliðsjón af lokaverði útboðsdags og er þá veittur lítilsháttar afsláttur af því. Ástæða þess er sú að verið er að auka framboð bréfa á markaði og óska eftir því að hæfir fagfjárfestar kaupi stærri hlut, þar sem óvissa er um nákvæma þróun dagslokagengis næstu vikur á eftir. Með þessu fyrirkomulagi er einnig verið að selja magn hlutabréfa sem nemur margra vikna viðskiptum á markaði og því er mögulegt að slík sala gæti haft áhrif á markaðsverð til skamms tíma,“ segir í greinargerð fjármálaráðherra.

Íslandsbanki boðar kaup á eigin bréfum

Á aðalfundi Íslandsbanka síðasta fimmtudag var tillaga stjórnar bankans var samþykkt á fundinum, á grundvelli stuðnings Bankasýslunnar, en með henni fær hún heimild til næstu tólf mánaða til að setja formlega endurkaupaáætlun eða gera hluthöfum tilboð um kaup bankans á eigin bréfum sem nemur allt að tíu prósent af hlutafé hans. Slíkt tilboð gæti meðal annars verið með útboðsfyrirkomulagi þar sem jafnræðis hluthafa er gætt við boð um þátttöku eða á „annan hátt sem stjórnin telur bankanum og hluthöfum hans hagfellt.“

Í greinargerð með breytingartillögu Gildis, eins og Innherji hefur fjallað um, kom fram að þetta þýddi að stjórninni væri í „reynd veitt opin heimild til kaupa á eigin hlutabréfum séu slík viðskipti metin bankanum og hluthöfum hans að mati stjórnar“ og fór lífeyrissjóðurinn fram á að sú heimild yrði felld út. Mikilvægt væri að gæta jafnræðis við kaup á eigin bréfum bankans og að slík endurkaup geti þess vegna ekki verið sérstaklega ívilnandi gagnvart tilteknum hluthöfum, svo sem mögulega íslenska ríkinu.

„Miðað við atvik hverju sinni gæti verið að hluthafar hafi ekki áhuga á óbeinni aukinni fjárfestingu í félaginu og hafi áhuga á sölu á sömu skilmálum,“ sagði í greinargerð Gildis með tillögunni.

Í bréfi sem ráðuneytið sendi á Bankasýsluna síðasta föstudag, vegna ákvörðunar um framhald söluferlisins á Íslandsbanka, er vísað til samþykktar aðalafundarins um heimild til endurkaupa á eigin bréfum á allt að tíu prósent af hlutafé en miðað við núverandi markaðsvirði er slíkur hlutur metinn á um 24,3 milljarða.

Ráðuneytið segist í bréfinu óska eftir því að Bankasýslan „leggi mat á hvernig nýta megi þau áform til að hámarka ábata ríkisins af sölu“ en tekur hins vegar fram að það þurfi að gerast „á sama tíma og jafnræði hluthafa í bankanum sé að fullu virt.“

Það þýðir meðal ann­ars að þú leggur þig ekki eftir lang­hæsta verð­inu enda hefur svona fyr­ir­komu­lag, svona sala aldrei farið fram án afsláttar neins staðar í heim­in­um.

Á seinni stigum söluferlis Íslandsbanka hefur Bankasýslan sagt að til greina komi að selja með miðlunaráætlun og/eða markaðssettu útboði. Miðlunaráætlun felst í því að verðbréfafyrirtæki fái fyrirmæli um að selja ákveðinn hluta fjölda hluta yfir visst tímabil, háð framboði og eftirspurn hverju sinni.

Tveir mánuðir eru síðan Bankasýslan lagði það til við fjármálaráðherra að fara fram með áfanga í sölumeðferð á hlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka. Upphaflega höfðu fjárfestar talið að farið yrði af stað með söluna febrúar, skömmu eftir ársuppgjör ríkissjóðs, en af því varð ekki og stríðsátökin í Úkraínu urðu þess síðan valdandi að óvissa var hvort salan myndi tefjast enn frekar. Væntingar um bankasöluna höfðu haft nokkur áhrif á hlutabréfamarkaðinn en stórir fjárfestar, meðal annars verðbréfasjóðir og lífeyrissjóðir, voru með augun á sölunni og þar af leiðandi haldið fjármagni til hliðar þegar að því kæmi að söluferlið á Íslandsbanka færi af stað.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað um 58 prósent miðað við gengið í útboði bankans í júní í fyrra. Sé hins vegar litið til verðsins eftir fyrsta viðskiptadag bankans, fram að lokun markaða í gær þegar Bankasýslan fór af stað með söluferlið, þá hafði gengi bréfa Íslandsbanka hækkað um 29 prósent. Það er meiri verðhækkun en hjá öðrum bönkum á markaði, en bréf Arion eru upp um 29 prósent yfir sama tíma og gengi Kviku banka hefur hækkað um 2 prósent.

Fyrir utan ríkissjóðs voru stærstu hluthafar bankans fyrir söluna Capital Group, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður og Stapi lífeyrissjóður. Hluthafar voru um 24 þúsund talsins við skráningu í Kauphöllina en hefur síðan þá fækkað um liðlega átta þúsund.

Umsjónaraðilar útboðsins í vikunni voru Citigroup, fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka og J.P. Morgan. HSBC Continental Europe og Fossar markaðir höfðu aðkomu að viðskiptunum sem söluráðgjafar.

Þá störfuðu ACRO verðbréf, Íslensk verðbréf, og Landsbankinn jafnframt sem söluaðilar í útboðinu. Lögfræðilegir ráðgjafar Bankasýslu ríkisins voru LOGOS og White & Case.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóðir hafa bætt 6 prósentum við hlut sinn í Íslandsbanka

Lífeyrissjóðir hafa bætt töluvert við hlut sinn í Íslandsbanka frá hlutafjárútboði bankans í júní á síðasta ári en á sama tíma hefur hlutdeild erlendra fjárfesta í bankanum minnkað. Þetta má lesa úr skýrslu fjármálaráðherra um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka, sem var lögð fyrir Alþingi.






×