Ásakanir Rússa um að Bandaríkjamenn og Úkraínumenn hafi verið að þróa slík vopn í Úkraínu og erfiðleikar innrásarhersins og hægur gangur stríðsins hafa orðið til þess að menn telja Pútín mögulega munu grípa til slíkra örþrifaráða.
Hópurinn, sem gengur undir viðurnefninu Tígris-teymið, skoðar einnig hvernig Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra ættu að bregðast við ef átökin teygðu anga sína inn á yfirráðasvæði Nató, til dæmis með árásum á vopnasendingar.
Þá er einnig unnið að því að leggja drög að viðbrögðum ef Pútín lætur ekki staðar numið í Úkraínu og ræðst inn í til að mynda Móldóvu eða Georgíu.
Samkvæmt New York Times verða þessir möguleikar ræddir á fundi Atlantshafsbandalagsríkjanna í dag en ríkin hafa enn ekki komist að samkomulagi um það hvernig þau munu bregðast við ef átökin í Úkraínu þróast með þessum hætti.
Eitt af því sem þarf að ákveða er hvað Nató-ríkin myndu gera ef Rússar beittu kjarnorkuvopnum yfir höfuð og hvernig þau ættu að bregðast við ef þeir beittu kjarnorku- eða efnavopnum innan landamæra Úkraínu, sem gætu haft skaðvænleg áhrif í nágrannríkjum, það er að segja hvort það væri nóg til að kalla á hernaðarleg viðbrögð Nató.