Meðal annars ætti að hjálpa Úkraínumönnum að verjast tölvuárásum og mögulegum efnavopna- eða kjarnorkuvopnaárásum. Hann varaði Rússa við því að beita slíkum vopnum og sagði að það myndi hafa alvarlegar afleiðingar.
„Við erum staðráðin í að gera allt sem við getum til að styðja Úkraínu,“ sagði Stoltenberg meðal annars.
Þetta sagði hann á blaðamannafundi í dag eftir leiðtogafund. Hann sagði að innrás Rússa í Úkraínu væri stærsta ógnin sem núlifandi kynslóðir hefðu staðið frammi fyrir. Úkraínumenn væru að berjast fyrir frelsi sínu og NATO stæði við bakið á þeim.
Stoltenberg sagði innrásina hafa breytt þeim raunveruleika sem bandalagið stæði frammi fyrir til lengri tíma.
NATO's Jens Stoltenberg says president Putin's invasion of Ukraine has changed NATO's "security environment for the long term", adding allies have seen credible and concerning reports of the use of Russian military force against civilians.
— Sky News (@SkyNews) March 24, 2022
Latest: https://t.co/WUfIUC76js pic.twitter.com/tIjfimZpOv
Þá sagði Stoltenberg að beita ætti Rússa frekari refsiaðgerðum og gera stríðsreksturinn dýran fyrir Rússa.
Stoltenberg sagði einnig að farið yrði nánar út í framkvæmd margra þeirra áætlana sem samþykktar voru á fundinum á öðrum og umfangsmeiri leiðtogafundi í Madríd í júní.
Leiðtogar NATO samþykktu að stofna fjórar nýjar herdeildir í Austur-Evrópu. Þeim verður komið fyrir í Búlgaríu, Rúmeníu, Slóvakíu og Ungverjalandi. Það er til viðbótar við þá fjörutíu þúsund hermenn sem eru fyrir í þeim hluta heimsálfunnar.
Þá fordæmdu leiðtogarnir innrásina harðlega og kölluðu eftir því að Rússar hörfuðu frá Úkraínu. Það kom fram í yfirlýsingu frá leiðtogunum.
Þar lýsa leiðtogarnir einnig yfir áhyggjum af því að ráðamenn í Kína hafi tekið undir lygar Rússa um Úkraínu og kalla eftir því að Kínverjar beiti áhrifum sínum á Rússa í þágu friðar og styðji ekki við bakið á Vladimír Pútin, forseta Rússlands, varðandi stríðið í Úkraínu.
Stoltenberg sagði að þetta myndi allt kosta peninga og leiðtogarnir hefðu samþykkt að verja meiru til varnarmála.
Bað um skriðdreka og þotur
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, var á leiðtogafundinum gegnum fjarfundarbúnað. Þar bað hann ekki um flugbann eins og hann hefur gert áður, heldur skriðdreka, orrustþotur og önnur hergögn.
„Þið getið gefið okkur eitt prósent af flugvélunum ykkar. Eitt prósent af skriðdrekunum ykkar. Eitt prósent. Þið eigið þúsundir orrustuþota en hafið ekki gefið okkur eina,“ hafa fjölmiðlar ytra eftir Selenskí.
„Úkraína vildi aldrei þetta stríð og við viljum ekki berjast í mörg ár. Við viljum bara bjarga fólkinu okkar. Við viljum bara fá að lifa. Að lifa! Eins og hver önnur þjóð. Við höfum rétt á því. Rétt til að lifa. Rétt á þessu eina prósenti,“ hefur Sky News eftir Selenskí.
Spurður út í þetta eftir fundinn sagði Stoltenberg að NATO hefðu aðstoðað Úkraínu með margvísum hætti. Með vopnum til að granda skriðdrekum, skjóta niður flugvélar og ýmislegu öðru. NATO hefur einnig aðstoðað Úkraínu með upplýsingum og öðrum leiðum.
CNN hefur eftir ráðamönnum í Bandaríkjunum að ríkisstjórn Joes Biden sé enn mótfallinn því að senda Úkraínumönnum orrustuþotur.
Þá er verið að skoða það að útvega Úkraínumönnum eldflaugar sem hannaðar eru til að sökkva skipum.