Innlent

Tvö­falda í­búa­fjölda Bif­rastar með flótta­mönnum frá Úkraínu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hin ónýttu herbergi á háskólasvæðinu munu nýtast flóttamönnunum vel. Þau hafa lítið verið notuð síðustu árin.
Hin ónýttu herbergi á háskólasvæðinu munu nýtast flóttamönnunum vel. Þau hafa lítið verið notuð síðustu árin. vísir/sigurjón

Í­búa­fjöldi á há­skóla­svæðinu við Bif­röst gæti tvö­faldast á næstu vikum þegar há­skólinn tekur á móti flótta­fólki frá Úkraínu. Nokkur vinna þarf að fara fram fyrir mót­tökuna og leitar skólinn nú að sjálf­boða­liðum til að leggja hönd á plóg.

Á Bif­röst er allt í fullum gangi um þessar mundir við undir­búning við mót­töku 150 flótta­manna frá Úkraínu. Von er á að þeir byrji að streyma til há­skóla­þorpsins í byrjun apríl og með því tvö­faldast í leiðinni fjöldi íbúa á Bif­röst.

„Það hafa náttúru­lega verið mun fleiri í­búar á þessu svæði þannig að við förum kannski upp í þá tölu aftur sem verður virki­lega gaman. En ég held að það sé gott að fá þau hingað. Það verður gott að halda utan um fólk og við getum hlúið vel að þeim,“ segir Hall­dóra Lóa Þór­halls­dóttir, for­maður byggðar­ráðs Borgar­byggðar.

Halldóra Lóa segir íbúafjölda í kring um háskólann hafa rokkað upp og niður síðustu ár og áratugi. Bærinn kann því að taka á móti stórum hópum fólks í einu.vísir/sigurjón

Há­skólinn á Bif­röst mun skaffa flótta­mönnunum hús­næði og að­stoða þá við að koma sér fyrir.

„Hérna ætlum við að taka á móti þeim, á þessu svæði. Og eins og þið sjáið þá er þetta náttúru­lega bara svona lítið hverfi með að­stöðu fyrir barna­fólk og leik­skóli hérna rétt fyrir ofan,“ segir Hall­dóra Lóa.

Eins og er eru um 70 her­bergi og 17 í­búðir lausar á svæðinu sem eru í eigu há­skólans.

„Við erum að gera okkur klár fyrir þessa mót­töku og aðal­lega finna út hvað við eigum af sængur­fötum, sængum, Við þurfum að gera heilt eld­hús klárt. Þannig það er heil­mikið í gangi hjá okkur,“ segir Margrét Jóns­dóttir Njarð­vík, rektor há­skólans.

Margrét er spennt fyrir verkefninu og segir alla íbúa svæðisins tilbúna að aðstoða.vísir/sigurjón

Dá­lítill hluti hús­næðisins er tómur og því biðlar há­skólinn nú til fólks um að gefa hér hús­gögn, borð­búnað og bara allt sem er hægt til að gera þetta heimilis­legt.

Nýtir rússneskuna

Sam­fé­lagið virðist meira en til­búið að taka á móti hópnum.

„Til dæmis komu skipti­nemarnir strax og sögðu við getum hjálpað, maður sem býr hérna og sagði heyrðu ég er vanur að kenna ís­lensku, enn annar kom og sagði ég tala rúss­nesku,“ segir Margrét.

Þessi myndarlega læða elti okkur um allt háskólasvæðið og mun taka vel á móti úkraínska hópnum.vísir/sigurjón

Við litum við hjá skipti­nemum á svæðinu.

Roberta kemur frá Litháen, og kann rúss­nesku. Hana tala flestir frá Úkraínu og því ætlar Roberta að að­stoða við öll sam­skipti við flótta­manna­hópinn.

„Þau skilja rúss­nesku en ég mun veira meira en til í að reyna að læra smá úkraínsku í leiðinni ef ég get,“ segir Roberta.

Roberta er frá Litháen en hefur stundað nám í Danmörku undanfarið og kemur þaðan sem skiptinemi.vísir/sigurjón

Hún segir alla skipti­nemana boðna og búna við að að­stoða flótta­manna­hópinn.

„Já, það erum við. Við erum bara lítill hópur skipti­nema en allir sem ég hef hitt eru ó­trú­lega til í að að­stoða flótta­mennina.“

Svona eru einstaklingsherbergin sem eru í boði hjá skólanum. Sex herbergi í einu húsi og sameiginleg eldunaraðstaða. Þegar fleiri sóttu staðnám við Bifröst dvöldu nemendur í þessum herbergjum.vísir/sigurjón



Fleiri fréttir

Sjá meira


×