Fótbolti

Breskur karlmaður í fangelsi fyrir rasísk ummæli í garð Rashford

Atli Arason skrifar
Marcus Rashford eftir vítaklúðrið gegn Ítalíu á Wembley.
Marcus Rashford eftir vítaklúðrið gegn Ítalíu á Wembley. Getty Images

Justin Lee Price, 19 ára karlmaður frá Worcester í Englandi, hefur verið dæmdur í sex vikna fangelsi fyrir rasísk ummæli um Marcus Rashford, framherja Manchester United, á samfélagsmiðilinum Twitter í kjölfar úrslitaleiks EM 2020.

Rashford var einn af þremur leikmönnum Englands sem misnotuðu víti í tapinu gegn Ítalíu í úrslitaleik EM á Wembley. Bukayo Saka og Jadon Sancho misnotuðu einnig sínar spyrnur og í kjölfarið braust út mikil óánægja hjá heimamönnum. Leikmennirnir þrír urðu fyrir miklu áreiti á samfélagsmiðlum en dökk hörund leikmannanna virtist vera mikið á milli tannana hjá sumum netverjum, þ.m.t. í færslu Justin Price.

Price reyndi að forðast yfirvöld með því að breyta nafninu á bak við reikninginn og í fyrstu yfirheyrslum hjá lögreglu neitaði Price að halda úti umræddum Twitter reikningi en játaði síðar.

„Sakborningur réðst að fótboltamanni vegna hörundlits hans. Gjörðir sakbornings flokkast sem rasismi og hatursglæpur,“ segir í dómnum.

Íþróttahreyfingin í heild hefur verið að berjast gegn kynþáttaníði í meiri mæli en áður. Þessi dómur er talin vera stórt skref í þá átt að útrýma kynþáttafordómum úr íþróttum.

„Þau sem beita afreksíþróttafólki kynþáttaníði eru að eyðileggja leikinn. Ég vona að þessi dómur sendi út þau skilaboð að kynþáttaníð er ekki liðið og allir afbrotamenn munu mæta afleiðingum lagana. Það er ekkert pláss fyrir hatur í fótbolta og hatursglæpur líkt og þessi hefur vissulega áhrif á fórnarlömb þess,“ sagði saksóknari þegar dómurinn var kveðin upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×