Körfubolti

Sólirnar unnu Curry-lausa Stríðs­menn í hörku­leik | Luka og LaMelo léku listir sínar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chris Paul steig upp þegar mest á reyndi.
Chris Paul steig upp þegar mest á reyndi. Ezra Shaw/Getty Images

Það var vægast sagt nóg um að vera í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Alls fóru 11 leikir fram. Besta lið deildarinnar, Phoenix Suns, vann nauman sigur á Stephen Curry-lausu liði Golden State Warriors, LaMelo Ball var í stuði er Charlotte Hornets vann New York Knicks og Luka Dončić heldur áfram að heilla með Dallas Mavericks.

Sólirnar frá Phoenix heimsóttu Stríðsmennina í Golden State í stórleik næturinnar. Fyrir fram var búist við sigri gestanna enda vantaði skærustu stjörnu heimamanna, Stephen Curry. Úr varð hins vegar hörkuleikur þar sem allt var í járnum frá upphafi til enda.

Jordan Poole steig upp í liði Golden State og átti frábæran leik og fékk boltann í hendurnar undir lok leiks þegar heimamenn þurftu þrist til að jafna metin. Eftir að Chris Paul hafði komið gestunum þremur stigum yfir fékk Poole boltann.

Með fjórar sekúndur eftir á klukkunni ákvað Poole hins vegar að taka skot frá miðju sem rataði ekki ofan í, heimamenn brutu og Sólirnar kláruðu leikinn á vítalínunni, lokatölur 103-107.

Poole endaði leikinn með 38 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar. Var þetta fimmtándi leikur hans í röð með 20 stig eða meira.

Hjá gestunum voru Devin Booker og Mikal Bridges stigahæstir með 22 stig hvor. Þar á eftir kom Deandre Ayton með 16 stig og jafn mörg fráköst.

LaMelo Ball fór hamförum er Geitungarnir frá Charlotte unnu heillum horfið lið New York Knicks í Madison Square Garden í nótt. Heimamenn gerðu sitt besta en það dugði ekki til gegn spræku liði Charlotte, lokatölur 114-125.

LaMelo var reyndar ekki stigahæstur í liði gestanna en hann skoraði „aðeins“ 20 stig á meðan Miles Bridges setti niður 31 og Kelly Oubre Junior skoraði 21 stig. LaMelo gaf hins vegar 15 stoðsendingar í leiknum, eitthvað sem hann hefur aldrei gert áður. Hjá Knicks var Evan Fournier stigahæstur með 30 stig og þar á eftir kom RJ Barrett með 25 stig.

Cleveland Cavaliers tók á móti Dallas Mavericks í hörkuleik. Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur en Cleveland leiddi í hálfleik til þess eins að hrynja í 3. leikhluta þar sem Luka og félagar fóru á kostum. Á endanum fór það svo að gestirnir frá Dallas unnu með átta stiga mun, lokatölur 112-120.

Caris LeVert skoraði 32 stig í liði heimamanna og Darius Garlandi var með 25 stig ásamt 10 stoðsendingum. Í liði Dallas var Luka með 35 stig og 13 stoðsendingar á meðan Dorian Finney-Smith skoraði 28 stig.

Í öðrum leikjum þá vann Miami Heat frábæran endurkomu sigur á Boston Celtics þökk sé frábærum 4. leikhluta, lokatölur í Boston 98-106. Jaylen Brown stigahæstur í liði heimamanna með 28 stig á meðan Jimmy Butler skoraði 24 fyrir Heat.

Memphis Grizzlies unnu nauman eins stigs sigur á San Antonio Spurs, lokatölur 112-111. Dejounte Murray var að venju allt í öllu hjá Spurs, hann skoraði 33 stig og tók 13 fráköst. Hjá Grizzlies var Tyus Jones stigahæstur með 25 stig.

Þá skoraði Trae Young 41 stig í öruggum sigri Atlanta Hawks á Oklahoma City Thunder, lokatölur 136-118 Hawks í vil.

Önnur úrslit

Portland Trail Blazers 107-117 New Orleans Pelicans

Houston Rockets 118-121 Sacramento Kings

Washington Wizards 127-110 Orlandi Magic

Toronto Raptors 125-102 Minnesota Timberwolves

Indiana Pacers 118-125 Denver Nuggets


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×