Það stendur mikið til á Siglufirði í dag þar sem kastljósinu verður beint að atvinnumálunum á Norðurlandi og grænni atvinnustarfsemi. Það er nýsköpunarhreyfingin Norðanátt sem stendur fyrir hátíðinni en þar munu norðlenskir frumkvöðlar kynna sínar hugmyndir og verkefni fyrir fjárfestum.
Hilda Jana Gísladóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, er hæstánægð með framtakið og telur að það sé komið til að vera.
„Það sem er magnað við þetta verkefni er að þetta er afurð sóknaráætlunar Norðurlands eystra þar sem heimafólk setur fram sína sýn um hvernig það vill sjá þennan landshluta dafna og vaxa og það sem er svo gaman að þetta er eitt dæmi um það verkefni sem er afurð þeirrar stefnumótunarvinnu þannig að þetta er vilji heimafólks til að gera á sínum forsendum það sem þarf til að færa okkur í sókn.“
Á síðustu árum hafi mikil vinna farið í að skapa atvinnutækifæri í landshlutanum og á forsendum fólksins sem þar býr.
„Þetta snýst ekki bara um það að sitja og bíða eftir því að einhver geri eritthvað og sjái hvað við erum að gera heldur setja kassann bara svolítiðfram og segja sjáiði hvað við erum að gera. Hér erum við með fullt af flottum hlutum á okkar forsendum og þannig færum við okkur áfram næstu skref í þá átt sem við viljum fara.“
Ottó Elíasson, rannsókna-og þróunarstjóri hjá Eimi, sem kemur að hátíðinni, segir að þemað sé hringrásarnýsköpun; matur, orka og vatn.
„Þetta eru þessir þrír tengipunktar í okkar daglega samfélagi mannanna; matur orka og vatn. Þetta eru allt saman verkefni sem miða að bættri nýtingu auðlinda ogframleiðslu á eldsneyti fyrir framtíðina með nýmóðins hætti. Þetta undirbyggir líka græna atvinnustarfsemi og við teljum að það sé lykilatriði fyrir framtíðina að atvinnustarfsemi sé byggð upp á þessum forsendum.“