Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 28-26 | Valur hafði betur í níunda leiknum í röð

Hjörvar Ólafsson skrifar
Valur
Vísir/Hulda Margrét

Valur lagði Hauka að velli 28-26 eftir jafnan og spennandi leik liðanna í Olísdeild kvenna í handbolta í Origo-höllinni að Hlíðarenda í dag. Valsliðið hefur farið með sigur af hólmi í níu síðustu leikjum sínum í deild og bikarkeppni.

Jafnræði var með liðunum frá upphafi til enda en liðin skiptust á að hafa forystuna. Margrét Einarsdóttir varði afar vel í fyrri hálfleik en það dró af henni þegar líða tók á leikinn. Staðan í hálfleik var jöfn 12-12 og Haukar voru skrefinu á undan fram í miðjan seinni hálfleikinn. 

Þá batnaði varnarleikur Vals og Signý Pála Pálsdóttir átti góð innkomu í mark Valsliðsins. Leikmenn Vals voru sterkari í lokakafla leiksins og fóru að lokum með tveggja marka sigur af hólmi. 

Valur er eftir þennan sigur með 28 stig í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir Fram, sem trónir á toppnum. Þessi lið mætast einmitt í næstu umferð deildarinnar. 

Mörk Vals í leiknum: Thea Imani Sturludóttir 7, Lovísa Thompson 5, Morgan Marie Þorkelsdóttir 5, Mariam Eradze 4, Hildur Björnsdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir 1.

Saga Sif Gísladóttir varði sjö skot og Signý Pála Pálsdótttir fimm fyrir Val.  

Mörk Hauka í leiknum: Sara Odden 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 7, Berta Rut Harðardóttir 4, Ragnheiður Ragnarsdóttir 2, Rakel Sigurðardóttir 2, Ásta Björt Júlíusdóttir 2, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1, Natasja Hammer 1.  

Margrét Einarsdóttir varði 16 skot fyrir Hauka. 

Ágúst Þór:  Ánægður með stigin en ekki spilamennskuna

„Ég er guðs lifandi feginn að hafa náð að landa sigri, sérsaklega þar sem mér fannst spilamennskan ekkert spes. Við vorum að tapa of mörgum boltum framan af leik og mér fannst þetta vera eitt skref til baka frá frammistöðunni í síðustu leikjum liðsins. Við náðum upp fínni vörn í lok leiksins sem skilaði þessum sigri að mínu mati," sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, eftir leikinn. 

„Það er hins vegar sterkt að vinna þrátt fyrir að það sé margt sem þurfi að laga. Nú höfum við viku til þess að undirbúa okkur fyrir erfitt verkefni á móti Fram í næstu umerð deildarinnar. Fram er á toppnum, hafa verið að spila vel og eru nú að endurheimta Steinunni Björnsdóttur, sem er einkar öflugur liðsstyrkur," sagði þjálfarinn geðþekki enn fremur. 

„Við verðum að nota vikuna vel til þess að fara yfir þau atriði sem við þurfum að laga. Það að er klárt að við þurfum að spila betur bæði í sókn og vörn ef við ætlum að ná í sigur á móti Fram. Það var gott tempó í þessum leik en það vantaði svolítið upp á gæðin hjá okkur," sagði hann um framhaldið. 

Gunnar: Svekkjandi að góð spilamennska skili engu

„Mér fannst við eiga skilið að fá eitthvað út úr þessum leik. Það er svekkjandi að spila jafn vel og við gerðum í dag en uppskera ekkert. Aftur á móti er margt jákvætt sem við getum tekið út úr þessum leik í lokaleiki deildarkeppninnar," sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka. 

„Markvarslan hjá okkur, sem var frábær í fyrri hálfleik, dalaði aðeins í þeim seinni og við áttum erfiðara með að skora eftir því sem leið á leikinn. Nú er bara að setja hausinn upp og mæta klárar í næst leik," sagði Gunnar. 

„Þetta var hraður og spennandi leikur sem hefur örugglega verið gaman að horfa á. Það er gott að vita að við eigum í fullu tré við bestu lið deildarinnar ef við náum upp okkar besta leik. Fram undan er svo bara barátta um að koma okkur í úrslitakeppnina. Ég er bjartsýnn á að það takist eftir þessa frammistöðu," sagði Haukamaðurinn. 

Af hverju vann Valur?

Það var lítið sem skildi liðin að en það var helst góð vörn Vals á ögurstundu sem varð til þess að heimakonur fengu stigin þrjú. Valur átti auðveldara með að skora sín mörk og Haukar þurftu að hafa mikið fyrir mörkum sínum í seinni hluta seinni hálfleiks. 

Hvað gekk illa?

Leikmenn Hauka fóru illa að ráði sínu í lokasóknum sínum í leiknum og sóknarleikurinn var ekki nógu agaður á ögurstundu. Valskonur fengu af þeim sökum nokkur auðveld mörk úr seinni bylgju. 

Hverjar stóðu upp úr?

Thea Imanir Sturludóttir skoraði mest fyrir Val og Lovísa Thompson var drjúg þegar mest á reyndi. Elín Klara Þorkelsdóttir og Sara Odden drógu vagninn fyrir Hauka. Elín Klara er ofboðslega spennandi leikmaður sem gaman er að fylgjast með spila handbolta. 

Hvað gerist næst?

Bæði lið spila mjög mikilvæga leiki í næstu umferð deildarinnar í baráttunni sem liðin eru í. Valur sækir topplið Fram heim í Safamýrina í rimmu liðanna um deildarmeistaratitilinn. 

Haukar fá hins vegar ÍBV í heimsókn en liðin berjast um fjórða og síðasta sætið í úrslitkeppni deildarinnar. Eyjakonur sitja í fjórða sætinu með 20 stig en Haukar eru sæti neðar með stigi minna. Leikirnir fara báðir fram á laugardaginn næsta. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira