Að því er segir í frétt the Guardian er búið að telja um 75 prósent atkvæða en í ræðu sem Orban hélt fyrir stuðningsmenn sína lýsti hann yfir afgerandi sigri. „Við unnum svo stóran sigur að hann sést frá tunglinu, og hann sést svo sannarlega frá Brussel,“ sagði hann.
Þar vísar hann auðvitað til Evrópusambandsins en yfirvöld þar hafa haft horn í síðu hans um árabil. Orban er sá leiðtogi í Evrópu sem lengst hefur setið á valdastóli samfleytt, utan einræðisherranna í Hvíta-Rússlandi og Rússlandi. Um þessar mundir sætir hann mikilli gagnrýni fyrir að hafa ekki fordæmt innrás Rússa í Úkraínu, en þeir Vladimir Pútín eru sagðir mestu mátar.
Flokkur Orbans, Fidesz, hefur farið með mikinn meirihluta í ungverska þinginu undanfarin ár sem hefur gert honum kleift að stýra landinu með harðri hendi.
Bandalag sex ólíkra stjórnarandstöðuflokka reynir nú að binda enda á valdatíð Fidesz-flokksins en oft og tíðum hefur stjórnarandstöðunni gengið erfiðlega að tala einum rómi í kosningabaráttunni enda spanna bandalagsflokkarnir sex flest róf stjórnmála, flokka bæði yst á hægri og vinstri ás stjórnmálanna, frjálslynda og græningja.
Svo virðist sem ungverska þjóðin hafi hafnað slíkri samsuðu stefnumála í kosningum, ef marka má fullyrðingar Orbans um stórsigur.