Innlent

Kviknaði í tveimur bílum í Ár­bænum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Slökkviliðið þurfti einnig að reykræsta íbúð í miðbænum .
Slökkviliðið þurfti einnig að reykræsta íbúð í miðbænum . Vísir/Vilhelm

Nokkur erill hefur verið hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins síðasta sólarhringinn en dælubílar voru sex sinnum kallaðir út.

Flest voru verkefnin þó minniháttar ef undan er skilið atvik í póstnúmeri 110 þar sem eldur kom upp í bíl. Eldurinn náði að læsa sig í annan bíl einnig og voru báðir fluttir á brott með pallbíl eftir uppákomuna.

Þá segir í skeyti frá lögreglu að um klukkan hálftíu í gærkvöldi hafi verið tilkynnt um eld í heimahúsi í Hafnarfirði. Þar var þó búið að slökkva eldinn þegar lögreglu og slökkvilið bar að garði.

Einnig þurfti slökkviliðið að reykræsta íbúð í miðbænum eftir að pottur hafði gleymst á eldavél.

Lögreglan hafði síðan hendur í hári bílþjófs í miðbænum, en þar hafði verið tilkynnt um mann sem var að reyna að komast inn í bíla.

Áður en lögregla kom á vettvang hafði honum tekist að komast inn í bíl og aka á brott. Hann fannst þó skömmu síðar og fékk að gista fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×