Fótbolti

Yfirmaður HM í Katar tók Lise á eintal eftir þrumuræðuna hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lise Klaveness gengur til sætis síns eftir ræðuna á ársþingi FIFA.
Lise Klaveness gengur til sætis síns eftir ræðuna á ársþingi FIFA. AP/Hassan Ammar

Lise Klaveness, formaður norska knattspyrnusambandsins, vakti athygli fyrir ræðu sína á Ársþingi Alþjóða knattspyrnusambandsins á dögunum þar sem hún gagnrýndi harðlega að heimsmeistarakeppnin færi fram í Katar.

Klaveness er nýtekin við sem yfirmaður norska sambandsins og nýtti tækifærið á þinginu til að lýsa sinni sterku skoðun á því sem er í ólagi í Katar eins og hvað varðar mannréttindi, jafnrétti og lýðræði. Hún sagði það óásættanlegt að FIFA hafi látið Katar fá keppnina árið 2010.

Klaveness notaði meðal annars líkindamálið að mannréttindi, jafnrétti, lýðræði, allt lykilatriði fyrir fótboltann, hafi ekki verið í byrjunarliðinu fyrr en mörgum árum seinna. Þessi atriði hafi aðeins fengið að koma inn á völlinn efitr mikla pressu utan frá.

Klaveness sagði norskum fjölmiðlum frá því að Hassan Al Thawadi, yfirmaður HM í Katar, hafi tekið hana á eintal eftir ræðuna.

„Hann kom til mín og sagði að ég hefði átt að hitta hann undir fjögur augu í Katar áður en ég steig upp í pontu eða kannski hefði ég ekki átt að fara þangað yfir höfuð. Hann var á því að svona gagnrýni ætti að koma fram í samtali milli manna en ekki í ræðu á ársþingi,“ sagði Lise Klaveness sem sagði að það hafi þó farið ágætlega með þeim.

Klaveness hélt næstum því sex mínútna ræðu þar sem hún gagnrýndi ákvörðunina að láta Katar fá HM.

„Hann vildi tala við mig og var vonsvikinn. Ég sagði að markmið mitt hafi ekki verið að gagnrýna sambandið hans sem slíkt heldur ákvörðun FIFA en hann hélt því fram að þetta hafi verið mjög skaðlegt fyrir undirbúningsnefnd keppninnar,“ sagði Klaveness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×