Nachman Ash, framkvæmdastjóri ráðuneytisins, ræddi málið í viðtali við útvarpsstöð í Tel Aviv í morgun en hann sagði að um aðkallandi vandamál væri að ræða, þó að tilfellin væru vissulega fá á þessum tímapunkti. „Þetta er bara toppurinn á ísjakanum,“ sagði Ash.
Hann lýsti þó yfir áhyggjum yfir að mikil þreyta væri í samfélaginu eftir Covid faraldurinn en Ísraelar hafa verið hvað fremst í flokki í bólusetningarátaki sínu gegn þeim sjúkdómi.
„Í þetta sinn er þetta mun flóknara. Fólk er þreytt eftir kórónuveiruna, þreytt á bóluefnunum,“ sagði Ash.
Síðasta tilfellið greindist árið 1988
Allir þeir sem hafa greinst með sjúkdóminn nýlega voru óbólusettir en byrjað var að bólusetja gegn sjúkdóminum í Ísrael árið 1957.
Síðasta tilfellið greindist árið 1988 að því er kemur fram í frétt Reuters en ung stúlka greindist með sjúkdóminn í mars og að minnsta kosti sex önnur tilfelli hafa verið skráð í Jerúsalem. Þá fannst veiran í fráveitukerfi í þriggja annarra borga.
Börn hafa reglulega verið bólusett gegn sjúkdóminum í Ísrael en einhver börn fengu aðeins einn skammt í stað tveggja. Heilbrigðisráðuneytið einblínir nú á þau börn sem hafa aðeins fengið einn skammt og þau sem hafa ekki verið bólusett yfir höfuð.