Sóttvarnalæknir greinir frá breytingunni á vef embættis landlæknis og segir að ef uppfærsla lendi á opinberum frídegi þá verði hún framkvæmd næsta virka dag. Fordæmi eru fyrir því að birtingardögum sé fækkað en hluta síðasta sumars voru tölfræðilegar upplýsingar einungis uppfærðar einu sinni í viku.
Smitrakningateymi almannavarna og landlæknis var formlega lagt niður um mánaðamótin þegar fjölmargir sem störfuðu meðal annars við rakningu og eftirlit létu af störfum. Að sögn samskiptastjóra almannavarna starfa nú um þrír til fimm starfsmenn í tengslum við Covid-19 hjá almannavörnum, mest í tengslum við skýrslugerð og rekstur Covid.is.
Faraldurinn ekki búinn þó ákveðið hafi verið að draga saman seglin
„Það er ýmislegt sem stendur eftir og margt sem er ekki búið í raun og veru, og eins og við vitum öll þá er Covid ekki búið þannig að við erum enn að fylgjast með og erum í góðri samvinnu við sóttvarnasvið hjá embætti landlæknis,“ sagði Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við fréttastofu um helgina.
Um tveir mánuðir eru nú liðnir frá því að síðast var boðið til upplýsingafundar vegna faraldursins. Síðan þá hefur bláa og græna sviðsmyndin sem er landsmönnum að góðu kunn verið tekin niður. Einnig hefur ræðupúltunum og öllum tækjabúnaði sem notaður var við útsendingar fundanna verið skilað.
„Þannig að við vonumst til að nota þetta aldrei aftur í þessum tilgangi en við erum nú samt búin að læra það á öllu þessu að aldrei segja aldrei og við ákváðum að tala aldrei um síðasta fund þar sem það hefur verið gert áður,“ sagði Hjördís.