Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari greindi frá því á blaðamannafundi í hádeginu að miðvörðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir yrði að vísu ekki með í leiknum á morgun, vegna minni háttar hnémeiðsla. Hún verður hins vegar klár í slaginn gegn Tékklandi næsta þriðjudag, samkvæmt Þorsteini.
Sara Björk Gunnarsdóttir, sem eignaðist son í nóvember, hefur litið vel út á sínum fyrstu landsliðsæfingum í langan tíma og Þorsteinn segir hana alveg ráða við að spila 90 mínútna leik.
„Hún er á fínum stað, svipuð og ég bjóst við og vonaðist eftir. Auðvitað vitum við að hún er kannski ekki í leikæfingu en hún er í fínu standi,“ sagði Þorsteinn sem vildi ekki segja til um hvort að Sara yrði í byrjunarliðinu á morgun:
„Ég er ekki búinn að tilkynna byrjunarliðið en það kemur bara í ljós. Hún er í formi til að spila, getur það alveg léttilega, og allar þrek- og hlaupatölur koma vel út fyrir hana. Ég hef engar áhyggjur af því að hún geti ekki spilað í níutíu mínútur.
Hún er á virkilega góðum stað miðað við hversu stuttur tími þetta er [frá fæðingunni]. Hún hefur náttúrulega lagt hart að sér til að komast í þetta stand á þessum tíma, og að ná því fylgir líka einhver heppni svo að þú lendir ekki í einhverju bakslagi. Sem betur fer fyrir hana og okkur þá hefur þetta bara gengið vel hjá okkur,“ sagði Þorsteinn.
Stutt að fara til að kaupa nýja skó
Dagný Brynjarsdóttir, sem leikur með West Ham, auglýsti á Instagram eftir ferðatösku sinni sem virðist hafa orðið eftir á Heathrow-flugvelli. Hún er hins vegar komin með takkaskó fyrir leikinn á morgun:
„Það er verslunarmiðstöð hérna 100 metra frá okkur þannig að það var ekki flókið mál fyrir hana að græja það. Það eina sem hana vantaði var takkaskór og legghlífar og það tók enga stund að leysa það,“ sagði Þorsteinn léttur í bragði.