Innherji

Alþjóðagreiðslubankinn býst við langvarandi verðbólgu

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Agustín Carstens ásamt Christine Lagarde, seðlabankastjóra Evrópu
Agustín Carstens ásamt Christine Lagarde, seðlabankastjóra Evrópu Alex Wong/Getty Images

Agustín Carstens, framkvæmdastjóri Alþjóðagreiðslubankans (BIS), sem er í eigu fjölda seðlabanka um allan heim, segir að „nýtt verðbólguskeið“ sé að renna upp. Hann varar við því að stjórnvöld reiði sig um of á peningustefnu eða ríkisfjármál til að koma böndunum á verðlagshækkanir og kallar eftir stefnumörkun sem miðar að því að auka framleiðslugetu hagkerfa. Þetta kom fram í ræðu sem Carstens flutti fyrr í vikunni og Financial Times greindi frá.

„Það er að renna upp fyrir heilli kynslóð samfélags, verkafólks og viðskiptamanna, sem hefur aldrei séð þýðingarmikla verðbólgu – að minnsta kosti ekki í þróuðum ríkjum – að öra hækkun verðlags er ekki einungis að finna í sögubókunum,“ sagði Carstens.

Að mati hans er kjölfesta verðbólguvæntinga að losna og mun sú þróun ágerast eftir því sem fyrirtæki velta meiri kostnaðarhækkunum út í verðlagið og launafólk krefst hærri launa. Hættan á „vítahring verðlags og launa“ fer því vaxandi. 

„Kerfisbundnir þættir, sem hafa haldið verðbólgu niðri á síðustu áratugum, kunna að láta undan eftir því sem undið er ofan af alþjóðavæðingunni. Heimsfaraldurinn, ásamt breyttu landslagi í alþjóðastjórnmálum, hafa nú þegar knúið fyrirtæki til að endurskoða áhætturnar sem felast í of dreifðum virðiskeðjum.“

Innrás Rússa í Úkraínu hefur þrýst upp verði á matvælum, eldsneyti og fleiri hrávörum. Slíkar hækkanir „renna beint út í verðlagið“ að sögn Carstens en hann bætti við að þensluhvetjandi peningastefna og lausatök í ríkisfjármálum ættu einnig þátt í því að verðbólgan „blossaði upp“.

Verðbólga í 30 ríkustu löndum heims mældist 7,7 prósent í febrúar en í sama mánuði í fyrra var hún einungis 1,7 prósent. Á þessum mælikvarða hefur verðbólga ekki verið meiri frá því í desember 1990.

Margar efnahagslegar áskoranir sem við horfum fram á í dag má rekja til þess að framboðsmiðaðar stefnur (e. supply-side policies) hafa verið vanræktar.

Carstens benti janframt á að verðbólga mældist yfir 5 prósentum í meira en 60 prósentum þróaðra ríkja og hefur hlutfallið ekki verið hærra síðan á níunda áratugnum.

„Kraftarnir að baki verðbólgu gætu varið í nokkurn tíma. Seðlabankans þurfa að aðlaga sig eins og sumir eru byrjaðir að gera.“

Seðlabankar víða um heim, svo sem í Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada, eru nú þegar byrjaðir að hækka stýrivexti til þess að bregðast við aukinni verðbólgu. Carstens sagði að aðlögunin að hærri vöxtum yrði ekki auðveld og benti á að heimili, fyrirtæki, fjárfestar og ríkisstjórnir væru of góðu vön. Sú staðreynd, sagði hann, endurspeglaðist meðal annars í mikilli skuldsetningu.

„Það verður áskorun að komast aftur í eðlilegt horf og stilla væntingar um hverju peningastefna getur skilað. Né heldur verða breyttar áherslur seðlabanka vinsælar.“

Carstens kallaði eftir „kerfislægum stefnum sem styrkja framleiðslugetu hagkerfa“ í stað þess að binda vonir við peningastefnu og ríkisfjármál.

„Margar efnahagslegar áskoranir sem við horfum fram á í dag má rekja til þess að framboðsmiðaðar stefnur (e. supply-side policies) hafa verið vanræktar. Seðlabankar hafa lagt sitt af mörkum síðasta áratuginn. Nú er tímabært að aðrar stefnur taki við keflinu.“


Tengdar fréttir

Allir studdu 75 punkta vaxtahækkun, óttast „hringrás verðlags- og launahækkana“

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands viðraði áhyggjur af „mögulegum annarrar umferðar áhrifum af verðhækkun innfluttrar vöru og launahækkunum“ á fundi sínum í byrjun þessarar mánaðar. Afleiðingarnar gætu birst í meiri og almennari verðhækkunum á vöru og þjónustu til þess að bregðast við auknum innfluttum verðbólguþrýstingi og hærri launakostnaði sem gæti „framkallað hringrás verðlags- og launahækkana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×