Erlent

Óttast stórsókn í austri

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Borgir í Úkraínu hafa margar hverjar verið lagðar í rúst af Rússum.
Borgir í Úkraínu hafa margar hverjar verið lagðar í rúst af Rússum. AP Photo/Felipe Dana

Þúsundir íbúa í austurhluta Úkraínu hafa flúið Donbas að undanförnu af ótta við stórsókn Rússa í austurhluta Úkraínu. Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins segir að stríðið geti dregist í marga mánuði eða ár.

Þungamiðja innrásar Rússa hefur verið að færast austur og suður á bóginn upp á síðkastið í átt að Donba þar sem Rússar hafa reyndar barist með uppreisnarmönnum frá árinu 2014. Úkraínsku hermönnum hefur tekist að þvinga Rússa til undanhalds frá höfuðborgarsvæðinu. Í borginni Kramatrosk í Donesk héraði hefur sprengjum ringt yfir íbúana sem margir hafa særst.

„Önnur sprengja sprakk síðan og höggbylgjan kastaði mér þvert yfir herbergið eða kannski yfir ganginn. Mér tókst víst að standa upp og fikra mig í átt að innganginum. Sjálfboðaliðarnir komu mér einhvern veginn út,“ segir Vitali Vyhotsev íbúi í borginni.

Vitali missti sjónina í árásinni og dvelur nú á yfirfullu sjúkrahúsi. Eyðileggingin blasir víða við í borginni en úkraínsk yfirvöld óttast að stórsókn sé í undirbúningi og hafa hvatt íbúa á svæðinu til að flýja.

Evrópusambandið hefur boðað hertari refsiaðgerðir, meðal annars innflutningsbann á kolum.

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins sagði í dag viðbúið að stríðið geti dregist á langinn.

„Við verðum að vera raunsæ og gera okkur grein fyrir að þetta gæti staðið lengi yfir, mánuðum saman, jafnvel árum. Af þeim sökum þurfum við að vera viðbúin því að þetta dragist á langinn, bæði að styðja við bakið á Úkraínu, viðhalda refsiaðgerðum og styrkja varnir okkar.“


Tengdar fréttir

Saka Rússa um að hafa gert á­rásir á frið­sæl mót­mæli

Úkraínumenn saka Rússa um að hafa gert sprengjuárásir á friðsæl mótmæli í sunnanverðri Úkraínu í dag. Stjórnvöld vara við hörðum átökum á svæðinu næstu daga. Frans páfi var óvenjuharðorður í garð Rússlandsforseta í ávarpi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×