Viðskipti innlent

Sex­falt fleiri gisti­nætur á hótelum

Eiður Þór Árnason skrifar
Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað í kjölfar afléttinga.
Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað í kjölfar afléttinga. Vísir/Vilhelm

Ætla má að gistinætur á hótelum hafi verið um 307.000 talsins í marsmánuði og þar af hafi gistinætur Íslendinga verið um 73.000. Þetta má lesa úr nýjum bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands en til samanburðar voru gistinætur á hótelum um 49.700 í mars 2021.

Um er að ræða en meira en sexföldun milli ára en í fyrra keyptu Íslendingar 82% gistinótta samanborið við um 24% í mars síðastliðnum.

Þó íslenskum gistinóttum hafi því fjölgað um 80% á milli ára er fjölgun gistinátta einkum drifin áfram af mikilli aukningu á gistinóttum erlendra ferðamanna. Samkvæmt bráðabirgðatölunum var rúmanýting um 43,2% í mars 2022 samanborið við 11,1% á sama tíma í fyrra. Rúmanýting er nú á við það sem hún var í mars 2012 en þá var hún 42,5%.

Að sögn Hagstofunnar eiga miklar breytingar nú sér stað á framboði á hótelrýmum og eykur það mjög óvissu í bráðabirgðamati á fjölda gistinátta. Því þurfi að taka áætluðum bráðabirgðatölum með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur hafa verið birtar.

Bráðabirgðatölur fyrir febrúar gerðu ráð fyrir að gistinætur hefðu verið um 295.000 en endanlegur fjöldi hótelgistinátta var nokkuð lægri eða 271.200.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×