Skoðun

Kosið um for­ystu í Fé­lagi fram­halds­skóla­kennara

Guðjón Hreinn Hauksson skrifar

Í fyrstu viku maímánaðar fara fram kosningar í Félagi framhaldsskólakennara. Tveir eru í framboði til formanns og alls bjóða sig 13 manns fram til setu í stjórn félagsins. Það er ákaflega sjaldgæft að svo margt fólk bjóði sig fram til stjórnar í félagasamtökum og því stefnir í sérstaklega áhugaverðar kosningar. Ég er þakklátur öllum frambjóðendum því þessi breiði hópur sýnir okkur að starfið innan félagsins okkar þykir eftirsóknarvert.

Það er alls ekki að undra að áhuginn sé svona mikill því framhaldsskólinn hefur verið mikið í umræðunni síðustu misserin. Covid-ástandið hreyfði svo um munaði við ýmsum þáttum sem rólegt hafði verið um í skólastarfinu. Þar má nefna stund og stað þeirra sem nema og kenna, hugtakið kennslustund, vinnuaðstæður, vinnutíma, félagsþroska og skóla sem samfélag, stuðning til náms og kennslu, starfsþróun og svo ótalmargt annað.

Kjaramálin eru svo enn annar kapítuli og ekki síður mikilvægur. Nú þegar ár er í að samningar verða lausir er að mörgu að hyggja og er það gríðarlega mikilvægt fyrir þá, sem kjörnir verða til forystu, að eiga þéttan og samheldinn hóp að baki sér í undirbúningi kjaraviðræðna og á meðan þeim stendur.

Það er ekki bara nauðsynlegt fyrir frambjóðendur að þátttaka verði góð í kosningunum heldur er það gríðarlega áríðandi fyrir allt samfélag kennara og ráðgjafa í framhaldsskólum. Ef við ætlum að taka okkur pláss í skólamálaumræðunni verðum við að sýna að við erum vakandi og virk og að fólkið sem velst til forystu njóti stuðnings félagsfólks. Á vef KÍ er að finna nánari upplýsingar um frambjóðendur og áherslur þeirra og ég hvet allt félagsfólk til þess að kynna sér það efni rækilega.

Nú hef ég þriggja ára reynslu í starfi formanns og finnst ég hafa náð ákveðnum árangri en um leið þykir mér svo ótal margt ógert. Ég er þess fullviss að ég geti, í náinni samvinnu við áhugasamt fólk í félaginu, komið góðu til leiðar í kjara-, skóla- og félagsmálum. Því sækist ég eftir endurnýjuðu umboði félagsfólks til þess að halda áfram að vinna með því að hagsmunum framhaldsskólakennara á breiðum vettvangi.

Gerum okkur gildandi. Sýnum hvað við erum að gera. Tökum pláss. Gerum það saman. Til er ég!

Höfundur er formaður Félags framhaldsskólakennara. 




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×