Birgir Ármannsson, formaður forsætisnefndar, staðfestir í samtali við fréttastofu RÚV að forsætisnefnd hafi borist kæra vegna framgöngu Sigurðar.
Umrædd kæra tengist ummælum sem Sigurður lét falla í garð Vigdísar Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, í gleðskap í tengslum við Búnaðarþing.
Fréttastofa hefur ekki náð í Birgi vegna málsins en Oddný G. Harðardóttir 1. varaforseti segir í samtali við fréttastofu að kæran hafi verið send til baka vegna formgalla. Ekki liggi fyrir á þessari stundu hvort búið sé að leiðrétta hann en að því búnu verði forsætisnefnd kölluð saman þar sem farið verður yfir hæfi nefndarmanna og erindið tekið til afgreiðslu. Hún segir að vafi gæti verið uppi um hæfi einhverra nefndarmanna sem hafi þegar tjáð sig opinberlega um málið.
Sigurður hefur ekki fengist til þess að segja opinberlega hver ummælin voru. Hann hefur sjálfur kallað ummælin „óviðurkvæmileg“ en Vigdís hefur sagt að þau afar særandi og að duldir fordómar séu gríðarlegt samfélagsmein sem grasseri á öllum stigum samfélagsins.
Heimildir fréttastofu herma að Sigurður hafi talað um Vigdísi sem „þá svörtu“.
Fréttastofa ræddi við Björn Leví Gunnarsson, þingmann Pírata og nefndarmann í forsætisnefnd, fyrir tæpri viku en hann fór vel yfir mögulegt framhald málsins ef til kæru myndi koma.
Sjá nánar: Vettvangur siðareglnanna nær út fyrir þingið
Hver sem er getur kært þingmann til siðanefndar Alþingis og þarf viðkomandi ekki að vera aðili máls. Fréttastofu er ekki kunnugt um hver það er sem hefur kært innviðaráðherra fyrir brot á siðareglum.
Fyrir helgi áttu Vigdís og Sigurður fund ásamt stjórn Bændasamtakanna en Vigdís greindi frá því í stöðuuppfærslu á Facebook að hún hefði meðtekið afsökunarbeiðni frá innviðaráðherra.
Uppfært: Kærandi hefur leiðrétt formgalla á kærunni og forsætisnefnd tekið á móti henni að nýju.