Þetta kemur fram á vef RÚV. Greint var frá því fyrir helgi að Embætti héraðssaksóknara hafi ráðist í umfangsmiklar aðgerðir á Ísafirði.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var Bragi Axelsson, fyrrverandi forstöðumaður útibús Innheimtustofnunar á Ísafirði, handtekinn. Honum var á dögunum sagt upp störfum ásamt forstjóranum Jóni Ingvari Pálssyni. Báðir höfðu verið sendir í leyfi í desember.
Mbl.is og DV greindu frá því í gær að Jón Ingvar hafi verið einn þeirra sem handtekinn var í aðgerðunum, auk þriðja starfsmanns stofnunarinnar.
Í frétt RÚV segir að fleiri en þrír séu með réttarstöðu sakbornings í málinu, og rannsókn héraðssaksóknara sé umfangsmikil. Enginn hafi þó verið úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Forstöðumaður á Ísafirði fékk sjálfur verkefni
Vefmiðillinn Bæjarins besta á Ísafirði hafði heimildir fyrir því í desember að í úttekt Ríkisendurskoðunar hafi komið upp að stjórnendurnir hefðu ráðstafað innheimtuverkefnum meðal annars til fyrirtækis í eigu Braga, forstöðumanns útibúsins á Ísafirði. Málið væri litið alvarlegum augum og yrði rannsakað til fulls.
Ný stjórn Innheimtustofnunar ákvað á fyrsta fundi sínum í desember að senda þá Jón Ingvar og Braga í leyfi frá störfum. Þeim var sem fyrr segir sagt upp fyrir helgi.
Ómar Valdimarsson, fyrrverandi forstjóri Samkaupa, var ráðinn forstjóri í stað Jóns Ingvars.
Ríkisendurskoðun hóf úttekt á verkefnum stofnunarinnar í september. Það var gert að ósk samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Það var gert vegna fyrirhugaðrar tilfærslu verkefna Innheimtustofnunar til ríkisins.
Úttektinni var ætlað að greina annars vegar núverandi skipulag, rekstur og kostnað við verkefni Innheimtustofnunar og hins vegar með hvaða hætti verkefnum stofnunarinnar yrði best komið fyrir hjá ríkinu. Ríkisendurskoðun upplýsti ráðuneytið í byrjun desember meðal annars um að svör Innheimtustofnunar sveitarfélaga við úttektarspurningum væru óviðunandi.