Fótbolti

„Ég ætla að fara á HM áður en ég hætti“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir ætlar sér á HM.
Glódís Perla Viggósdóttir ætlar sér á HM. Stöð 2 Sport

„Þessi leikur fór kannski bara eins og við bjuggumst við,“ sagði landsliðsmiðvörðurinn Glódís Perla Viggósdóttir eftir mikilvægan sigur íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í dag.

„Við bjuggumst við að þetta yrði mikil barátta og að líklega yrðu ekkert mjög mörg mörk skoruð. Við náum að skora þetta mark tiltölulega snemma og eftir það finnst mér við bara spila þennan leik eins og lið. Við tökum öll hlaup og baráttur fyrir hverja aðra. Stelpurnar sem eru að koma inn á koma með mikinn kraft.“

„Við sýndum að við erum liðsheild frá fyrsta og upp í 23. mann í dag og ég er ótrúleg stolt af liðinu mínu.“

Íslenska liðið fékk á sig mark í uppbótartíma, en sem betur fer var það dæmt af. Glódís viðurkennir að hjartað hafi líklegast tekið eitt aukaslag þegar boltinn fór í netið.

„Jú það gerði það aðeins. En maður fór strax í að sækja boltann og við urðum þá bara að skora aftur. En sem betur fer þá var þetta brot. Ég vona að þetta hafi verið brot,“ sagði Glódís og hló.

„En það skiptir kannski engu máli og ég er bara ótrúlega ánægð með þetta í dag. Nú erum við í þeirri stöðu sem við vildum vera í fyrir haustið og nú förum við að einbeita okkur að EM.“

Nú er það alfarið í höndum íslenska liðsins að tryggja sér sæti á HM í fyrsta skipti og Glódís segir það vera algjöra draumastöðu.

„Já, það er það. Við vorum búnar að tala um það fyrir þessa tvo leiki að ef við klárum þá þá erum við í draumastöðu og okkur auðvitað langar að fara á HM. Við höfum aldrei farið á HM áður og ég ætla að fara á HM áður en ég hætti. Það væri geggjað ef það myndi gerast núna,“ sagði Glódís að lokum.

Klippa: Glódís Perla eftir leik

Tengdar fréttir

„Elskum við ekki svona?“

Sif Atladóttir segir að sigurinn á Tékklandi í undankeppni HM í dag hafi verið einn sá sætasti sem hún hefur upplifað með landsliðinu.

„Boltinn fór í lærið og eitthvað“

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Þær eru með drullugott lið. Við skoruðum eitt mark þótt það hafi ekki verið það fallegasta. Við gáfum allt í þetta og ég er svo stolt af liðinu,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, eftir sigurinn á Tékklandi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×