Sylvía Ólafsdóttir lögmaður vann hjá Eflingu en hætti árið 2020. Hún segir að málið varði sig sérstaklega enda séu margir þeirra, sem sagt var upp í vikunni, fyrrum samstarfsmenn.
„Þetta eru vinnufélagar mínir fyrrverandi. Réttlætiskennd minni er bara algjörlega misboðið. Hópuppsagnir stéttarfélags; stéttarfélags sem á að berjast fyrir að svona sé aldrei gert. Stéttarfélag ætti að vera fyrirmyndavinnustaður þar sem að öllu starfsfólki liði vel og fengi greitt fyrir vinnu sína. Þetta er bara svo öfugsnúið,“ segir Sylvía.
„Fólk er bara í áfalli“
Hún segir að málin skýrist vonandi á næstu dögum en telur að skrifstofan verði óstarfhæf - að minnsta kosti um sinn. Margir hafi haft samband við hana nú þegar og hún gerir ráð fyrir því að fleiri bætist í hópinn eftir páska.
„Fólk er bara í áfalli, það er ekki að sofa á nóttunni og bara áhyggjur og kvíði yfir framtíðinni. Ég sé ekki fyrir mér að skrifstofan verði starfhæf í mjög langan tíma,“ segir Sylvía.
Aðspurð segist hún ekki hika við að bera lögmæti uppsagnanna undir dómstóla: „Auðvitað. Við myndum alltaf ráðleggja félagsmönnum þetta, að sækja sinn ýtrasta rétt. Það er það sem stéttarfélög gera,“ segir Sylvía.
Hún ítrekar að starfsfólk Eflingar geti leitað til stéttarfélaga sinna vegna uppsagnanna en margir starfsmenn eru í VR. Þeir starfsmenn Eflingar sem einnig hafa verið í stéttarfélaginu sem slíku eigi ekki í nein hús að vernda.
Kanna grundvöll fyrir skaðabótamálum
Meðal þeirra hluta sem hún ætlar að kanna er hvernig staðið var að undirbúningi uppsagnanna - hvort að framkvæmdin hafi verið rétt. Fólki hafi verið sagt upp með tölvupósti um miðja nótt og athuga þurfi hvort grundvöllur geti verið fyrir skaðabótamálum.
„Ég hef aldrei séð svona. Burtséð frá því hvort að það er stéttarfélag eða ekki, sérðu bara fyrir þér að einhver opinber stofnun segi: „Hey, við þurfum að breyta launastrúktúr og skipulagi. Rekum bara alla.“ Maður sér það alveg að viðkomandi fyrirtæki eða stofnun verður óstarfhæf því það er ekkert víst að allir sem að fá þessa blautu tusku í andlitið vilji vinna þarna áfram og sækja um aftur,“ segir Sylvía.
„Það eru rosalega margir í áfalli. Þetta var bara svakalegur skellur, ég er ekki að sjá fyrir mér það séu allir þarna sem eru að fara að eiga gleðilega páska. Fólk er bara í sjokki. Og sumum hafa aldrei verið sagt upp; að fá þessa höfnun,“ bætir hún við.