Viðskipti innlent

Advania kaupir Azzure IT

Eiður Þór Árnason skrifar
Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri viðskiptalausna Advania á Íslandi.
Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri viðskiptalausna Advania á Íslandi. Aðsend

Advania hefur fest kaup á breska fyrirtækinu Azzure IT sem sérhæfir sig í viðskiptakerfum Microsoft í skýinu. Með kaupunum bætast sextíu nýir sérfræðingar á því sviði í hóp Advania-samstæðunnar.

Azzure IT er staðsett í Sheffield í Englandi og er að sögn Advania leiðandi á breskum markaði í þjónustu á viðskiptakerfum Microsoft. Markmið kaupanna sé að geta boðið viðskiptavinum Advania enn betri þjónustu og ráðgjöf á sviði viðskiptalausna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu sem hóf starfsemi í Bretlandi í fyrra með kaupum á upplýsingatæknifélaginu Content+Cloud sem sérhæfði sig í viðskiptalausnum og var stærsti samstarfsaðili Microsoft þar í landi.

„Með Azzure IT-viðbótinni verðum við einn stærsti samstarfsaðili Microsoft í Norður-Evrópu með breytt vöruframboð og mikla sérhæfingu sem nýtist okkar viðskiptavinum. Það er gleðilegt að fá svo öflugan liðsauka í sérfræðiteymi Advania á sviði viðskiptalausna,” segir Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri viðskiptalausna Advania á Íslandi, í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×