Eftir meira en tveggja ára óratímabil á Reykjanesskaga með öflugum jarðskjálftum, eldgosi í Fagradalsfjalli og nokkrum kvikuinnskotum hefur athyglin síðustu daga beinst að hafsvæðinu út af Reykjanestá og í kringum Eldey. Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðing við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

„Það eru engar vísbendingar um að það séu kvikuhreyfingar, utan dálítið óvenjuleg skjálftavirkni. Það er ekki að sjá færslur á gps-mælingum, sem við höfum séð í hinum 5-6 kvikuinnskotunum, sem hafa verið síðan 2020. En það er líka mögulegt að þetta sé einfaldlega það lítið magn af kviku að það mælist ekki.“
Halldór tekur fram að í dag hafi komið í ljós að skringilegir skjálftar sem fram komu á mælum við Reykjanesvita reyndust stafa frá skurðgröfu sem var að skarka á svæðinu. Skjálftahrinan við Eldey er hins vegar raunveruleg, sem hefur vakið upp spurningar um líkur á neðansjávargosi.

„Þetta er náttúrlega sviðsmynd sem er vert að taka mjög alvarlega. Það gaus þarna á þrettándu öld nokkrum sinnum í sjó.
Og þá var aska sem lagðist meðal annars yfir höfuðborgarsvæðið og myndaði hið svokallaða miðaldalag, sem er notað heilmikið í fornleifafræði til aldursgreininga hérna. Ef slíkur atburður myndi endurtaka sig, þá væri það eitthvað sem höfuðborgarbúar myndu klárlega taka eftir.“
Halldór segir marga hallast að því að nýtt virknitímabil sé hafið á Reykjanesskaga.
„Þá gæti í sjálfu sér komið upp gos á ýmsum stöðum. Þannig að það er bara um að gera að fylgjast með og sjá hvað er að gerast,“ segir jarðeðlisfræðingurinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: